Íslenska ríkið þarf að greiða karlmanni, sen varð fyrir atvinnutjóni og þjáningum af völdum lögregluaðgerða árið 2010, rúmar fimmtán milljónir í miskabætur.

Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur 9. mars og birtist í dag á vef dómsins.

Sonurinn grunaður um kókaínsmygl

Málið varðar stórfellt fíkniefnamál sem lögreglan rannsakaði þar sem sonur mannsins var grunaður um að skipuleggja kókaínsmygl frá Suður-Ameríku. Við rannsókn vaknaði grunur um að faðir mannsins, stefnandinn í þessu máli, byggi yfir upplýsingum um kókaínsmyglið og væri jafnvel viðriðinn við málið.

Lögreglan hleraði síma mannsins í nokkra mánuði og gerði húsleit á heimili hans og fann lítið magn af marijúana, lykil að bankahólfi og ferðatösku sem innihélt leifar af kókaíni. Í kjölfarið var maðurinn handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald og einangrun frá 15. apríl 2010 til 21. apríl 2010.

„Stefnandi hafi einnig upplifað mikla reiði, mannorðsmissi og skömm vegna aðgerða lögreglu“

Missti vinnuna og geðheilsuna

Eftir að maðurinn losnaði úr gæsluvarðhaldi missti hann vinnuna og þurfti að leita til geðsviðs Landspítala vegna andlegra veikinda eftir áfallið. Sakamálið var síðar fellt niður og ákvað þá maðurinn að stefna ríkinu. Það mál hófst 2012 og velktist um í kerfinu til ársins 2017 þegar ríkið var gert að greiða manninum tvær milljónir í miskabætur en kröfu hans um bætur vegna atvinnumissis var vísað frá.

Niðurstaða matsmanna var að stefnandi hefði orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni, varanlegum miska og varanlegri örorku. Í mati geðlæknis þróaði maðurinn með sér áfallastreituröskun eftir lögregluaðgerðirnar og var varanleg örorka mannsins metin 80 prósent.

„Í yfirmatsgerð er rakið að stefnandi hafi glímt við geðræn einkenni í tengslum við mikið álag árin 2003 og 2004, en hins vegar farið á vinnumarkað á nýjan leik árið 2006. Verði ekki annað séð en að hann hafi
jafnað sig nokkuð vel af umræddum einkennum áður en það tjón sem hér sé til umfjöllunar hafi komið til sögunnar, en hann hafi þó fengið kvíðastillandi lyf og svefnlyf,“ segir í dómnum.

Tók vímuefnaneyslu sonarins inn á sig

Í heilsufarssögu mannsins kemur einnig fram að heilsufar mannsins fyrir aðgerðir lögreglu hafi helst einkennst af endurteknum húðsýkingum og kvíða vegna álags sem fylgdi óreglu miðsonar síns.

„Hann hafi tekið vímuefnaneyslu sonarins inn á sig og átt erfitt með svefn og fundið fyrir mikilli streitu og kvíða vegna hennar. Kemur fram að sonur stefnanda hafi flutt af landi brott 2006 og þá hafi andleg heilsa stefnanda orðið mun betri.“

Eftir það fór maðurinn út á vinnumarkað og fann fyrir bættri heilsu en eftir að hann var handtekinn af lögreglu árið 2010 upplifði hann á nýjan leik mikinn kvíða og þunglyndi.

„Stefnandi hafi einnig upplifað mikla reiði, mannorðsmissi og skömm vegna aðgerða lögreglu enda hafi hann misst atvinnuna vegna þeirra.“