Fimmtán lönd hafa heiðrað Úkraínu með því að nefna eða endurnefna götur eða torg síðan innrás Rússa hófst fyrir rúmu hálfu ári síðan. Sum lönd hafa gert það tvisvar og í heildina hafa 20 staðir verið nefndir eftir Úkraínu eða Kænugarði, höfuðborg landsins.

Það var 27. apríl sem ákveðið var að torgið á horni Garðastrætis og Túngötu fengi opinberlega nafnið Kíyv torg og garður þar við Kænugarður. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hélt svo ræðu þegar athöfn því til staðfestingar fór fram 11. ágúst. Sendiráð Rússlands er þar í næsta nágrenni.

Samkvæmt úkraínska utanríkisráðuneytinu eru hin löndin Noregur, Svíþjóð, Frakkland, Lúxemborg, Tékkland, Slóvakía, Pólland, Ungverjaland, Eistland, Lettland, Litáen, Albanía, Bandaríkin og Kanada. Noregur, Tékkland, Lettland, Litáen, Albanía og Kanada hafa endurnefnt götur eða torg þar sem rússnesku sendiráðin standa.

Tvær nýjustu „úkraínsku göturnar“ eru Boulevard de Kyiv í Lúxemborg og Ukrainian Way í New York borg. Þær fengu nöfn sín á miðvikudag í síðustu viku, þjóðhátíðardag Úkraínu.