Bann eða hömlur á komum rússneskra ríkisborgara til Íslands hafa ekki komið til skoðunar á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Ekki heldur innan utanríkisráðuneytisins enn sem komið er.

Krafan um að för rússneskra ferðamanna verði heft verður sífellt háværari í Evrópu. Volodímír Zelenskíj, forseti Úkraínu, hefur kallað eftir því að Vesturlönd banni rússneska ferðamenn. „Rússar ættu að fá að vera í sinni eigin veröld þar til þeir breyta sínu hugarfari,“ sagði hann í viðtali við Washington Post.

Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands.
Fréttablaðið/AFP

Þá hefur Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands, einnig kallað eftir að Evrópa neiti Rússum um vegabréfsáritanir. „Það er ekki réttlátt að Rússar fái að lifa eðlilegu lífi og ferðast til Evrópu á meðan þeir heyja grimmilegt árásarstríð í álfunni,“ sagði Marin í sjónvarpsviðtali. Kaja Kallas, forsætisráðherra Eistlands, hefur tekið í sama streng.

Evrópuþjóðir hafa sett á bann við rússneskum flugvélum og hafnbönn á skip en Rússar geta þó enn farið yfir landamæri. Fjöldi Rússa hefur streymt yfir landamærin til bæði Finnlands og Eistlands síðan stríðið hófst og geta þaðan farið með flugvél hvert sem er.

Samkvæmt tölum Ferðamálastofu hafa 1.527 rússneskir ferðamenn komið til Íslands á undanförnum sex mánuðum, það er síðan innrás Rússa í Úkraínu hófst. 616 Rússar komu til Íslands í júlí. Aðeins rúmlega 200 rússneskir ríkisborgarar eru búsettir á Íslandi.

„Ég tel rétt að beita þrýstingi meðal annars með því að torvelda aðgang efnaðra Rússa að vestrænum munaði, og þar koma ferðalög vissulega til álita,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra spurð að því hvort hún myndi styðja bann eða hömlur á komur rússneskra ríkisborgara til Íslands. Telur hún mikilvægt að ríki séu samstíga í beitingu þvingunaraðgerða.

„Á móti þessum sjónarmiðum þarf að hafa í huga að fjölmargir íbúar Rússlands eru mótfallnir stríðsrekstrinum og enn fleiri hefðu gagn af því að fá aðgang að vestrænum fjölmiðlum sem fjalla á allt annan hátt um hina grimmilegu og ómanneskjulegu innrás Rússa heldur en gert er í rússneskum fjölmiðlum,“ segir Þórdís.

Þá segir Þórdís að rétt sé að hafa í huga að umræðan um útgáfu vegabréfsáritana til rússneskra ríkisborgara sé mest aðkallandi í þeim löndum sem eiga landamæri að Rússlandi en sjaldgæft sé um þessar mundir að leitað sé eftir ferðamannaáritunum vegna ferða frá Rússlandi.