Fimmtán er­lend­ir ferðamenn sem ferðuðust með Herjólfi í gær greind­ust all­ir smitaðir af COVID-19. Ferðamenn­irn­ir fengu já­kvæðar niður­stöður úr skimun þegar komið var í land í Heima­ey. Mbl.is greindi fyrst frá.

„Það voru farþegar í gær sem voru að ferðast frá Land­eyja­höfn til Vest­manna­eyja sem fengu sím­tal eft­ir að þeir komu til eyja um að þeir væru með já­kvæðar niður­stöður,“ segir Hörður Orri Grett­is­son, fram­kvæmda­stjóri Herjólfs.

„Við fáum í raun og veru bara upp­lýs­ing­ar frá lög­regl­unni í Vest­manna­eyj­um sem ann­ast þessa rakn­ingu og feng­um leiðbein­ing­ar frá henni. Þessi hóp­ur fór síðan yfir í Land­eyja­höfn aft­ur og þau sátu í rútu inni á bíla­dekki.“

Hörður seg­ir að gripið hafi verið til ákveðinna vinnu­regla sem séu til staðar fyrir svona tilvik.

„Við feng­um síðan upp­lýs­ing­ar um hvernig við ætt­um að haga okk­ur og hvað við þyrft­um að gera frá rakn­ing­ar­t­eym­inu.“

Voru nei­kvæð við komuna til Ís­lands

„Það eru margir sem koma inn til landsins með nei­kvætt PCR en svo greinist fólk eftir að það kemur í ein­hverjum til­vikum, það er bara svo­lítið eins og Delta af­brigðið virkar,“ segir Hjör­dís Guð­munds­dóttir, upp­lýsinga­full­trúi al­manna­varna í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hjör­dís segir að hópurinn sé ekki lengur í Vest­manna­eyjum og að rakningar­teymi al­manna­varna sé að vinna að því að koma hópnum í sótt­kví í sótt­varnar­húsi.

Hún segir það við­búið að fleiri sem tengjast hópnum eða áttu sam­neyti við hann muni greinast já­kvæðir.

„Við búumst frekar við því heldur en ekki að það bætist í þennan hóp, þeir sem tengjast honum, miðað við hvað þetta er smitandi.“

Fréttin var uppfærð kl. 14:04.