Fimmtán ára drengur er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að hann stakk jafnaldra sinn í nótt. Það staðfestir Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið. Drengurinn er ekki talinn í lífshættu.

Árásin er ekki talin tengjast rannsókn lögreglunnar á stunguárásinni á Bankastræti Club fyrir viku síðan en Margeir segir hana þó alvarlega.

„Þetta er alvarlegt og það sem við höfum verið að benda á. Þetta er ekkert nýtt en málin tengjast ekki,“ segir Margeir.

Hann segir málið unnið í samvinnu við barnavernd vegna aldurs drengsins og að hann verði tekinn fyrir í dag og komið á viðeigandi stað.