Inn­lendar rann­sóknir á vegum Rann­sókna og greiningar sýna að 43 prósent ung­linga í 8. til 10. bekk sofa að­eins 7 klukku­stundir eða minna á nóttu.
Önnur rann­sókn sýnir að meðal­svefn­tími 15 ára hér er að­eins um 6 tímar á nóttu, á virkum dögum.

Þetta er langt undir æski­legum við­miðum sam­kvæmt upp­lýsingum frá land­lækni. Einn vandinn er sagður sá að skólarnir hefjist of snemma. Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri hjá skóla- og frí­stunda­sviði Reykja­víkur­borgar, segist vilja sjá breytingar. „Ég tel út frá lífs­klukku ung­linga að skóla­dagur þeirra ætti að hefjast síðar en hann gerir,“ segir Helgi.

Á bæjar­stjórnar­fundi unga fólksins á Akur­eyri ný­lega fundaði Ung­menna­ráð Akur­eyrar með bæjar­stjórn. Taldi unga fólkið að skólar ættu að hefjast seinna en þeir gera, helst klukkan níu á morgnana.

Bryn­hildur Þórarins­dóttir, barna­bóka­rit­höfundur og há­skóla­kennari, er sam­mála unga fólkinu og sviðs­stjóra Reykja­víkur­borgar um að skólar hefjist of snemma, einkum fyrir ung­linga. Allar rann­sóknir styðji að ung­lingar þurfi meiri svefn en þeir fá. Í ofan­á­lag sé klukkan hér á landi rang­lega stillt.

Fréttablaðið/Grafík

Vill seinka skólabyrjun til klukkan níu

„Ég hef kennt bæði í ung­linga­deildum og í há­skóla og hef reynslu af því að þessar fyrstu kennslu­stundir á morgnana eru mjög auð­veldar í kennslu af því að nem­endur eru hrein­lega sofandi,“ segir Bryn­hildur.

Ef vilji standi til að börn fari í gegnum skóla­kerfið sem neyt­endur fremur en virkir þátt­tak­endur í náminu þarf engu að breyta, að sögn Bryn­hildar.

„En ef við viljum nú­tíma­legt skóla­starf og lýð­ræðis­leg vinnu­brögð þar sem nem­endur axla á­byrgð á menntun sinni með því að taka virkan þátt í skapandi vinnu, þá skulum við seinka skóla­byrjun til klukkan níu á morgnana.“

Svefnleysi kann að hafa áhrif á niðurstöður í PISA-könnunum

Átak stendur nú yfir hjá Em­bætti land­læknis um mikil­vægi svefns fyrir heilsu og líðan. Alma Möller land­læknir segir að þeir sem til­einki sér góðar svefn­venjur séu hamingju­samari, hæfari til að takast á við streitu og kvíða og eigi auð­veldara með að takast á við dag­legt líf. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá land­lækni er æski­legur svefn­tími barna mis­munandi eftir aldri. Börn á aldrinum 1-2 ára þurfi 11-14 tíma, börn 3-5 ára 10-13 tíma, börn 6-13 ára 9-11 tíma og ung­menni 8-10 tíma.

Van­svefta börn og ung­menni sýna sam­kvæmt gögnum frá land­lækni lakari fram­leiðni yfir daginn. Það sést oftar en ekki á náms­árangri þeirra. Sami hópur er einnig lík­legri til að nota koffín til að halda sér vakandi. Þá er þekkt að ljós frá skjá­tækjum geti dregið úr fram­leiðslu á mela­tóníni og haft á­hrif á svefn. 30 prósent ís­lenskra nem­enda í 8. bekk neyta dag­lega orku­drykkja sem inni­halda koffín.

Skiptir máli að nemendur séu vel stemmdir

Helgi Gríms­son, sviðs­stjóri hjá skóla- og frí­stunda­sviði Reykja­víkur­borgar, vill að breytingar eigi sér stað og skólar hefji kennslu síðar en nú er.

Bryn­hildur Þórarins­dóttir, kennari og barna­bóka­höfundur, nefnir að hennar eigin börn hafi gengið í skóla bæði á Eng­landi og Ír­landi. Á báðum stöðum hafi skólarnir hafist klukkan níu og að auki hafi lands­klukkan þar verið nær sólar­gangi en hér.

„Við þurftum enga vekjara­klukku. Það var allt annað að virkja börnin á morgnana. Það skiptir svo miklu máli að nem­endur sé vel stemmdir. Ætli það myndi ekki bæta niður­stöður PISA-prófanna um nokkur stig ef nem­endum væri fyrir próf­töku boðið að sofa lengur og borða saman morgun­mat í ró­leg­heitum í skólunum,“ segir Bryn­hildur.

Við­mælendur Frétta­blaðsins sögðu ráð­gátu að allir vildu seinka skóla­tíma en ekkert gerðist í því.