Hinn spænski Alber­to Sánchez Gómez hefur verið dæmdur í fimm­tán ára fangelsi fyrir að hafa myrt móður sína og borðað líkams­leifar hennar. Frá þessu er greint á vef BBC.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá í apríl átti at­vikið sér stað árið 2019. Játaði Alber­to sjálfur að hafa myrt móður sína, Mariu So­ledad Gomez, í íbúð þeirra í Ventas- hverfinu í Madríd og síðar bútað hana niður.

Lög­reglu­menn lýstu í réttar­sal að­komunni að íbúð móðurinnar þegar upp­víst varð um glæpinn. Alber­to tók þá á móti þeim og sagði að móðir hans væri látin. Þegar inn var komið fundust líkams­leifar Mariu á víð og dreif um í­búðina.

Þær voru sumar vafðar í plast, höfðu verið settar í ís­skáp eða lágu mat­reiddar í pottum og ofni í eld­húsinu. Höfuð Mariu og hendur fundust í svefn­her­berginu á­samt hjarta hennar sem lá í í­láti á­samt gaffli.

Í frétt BBC kemur fram að hann hafi bútað hana niður í rúmar tvær vikur, borðað hluta af líkinu og gefið hundinum sínum eitt­hvað af því. Suma hluta eldaði hann en aðra borðaði hann hráa.

Lög­reglu­menn segja að Gomez hafi verið mjög ró­legur þegar þá bar að garði. Hann hafi talað um málið líkt og um hvers­dags­legan hlut væri að ræða en þó lýst yfir á­hyggjum af því hvernig hundur hans hefði það.

Í réttar­höldunum sagðist Alber­to hafa heyrt raddir sem sögðu honum að drepa móður sína. Hann hefði búið á götunni eftir að Maria fékk sett nálgunar­bann á hann.

Að sögn Alber­to greip hann þó að­eins til þeirra ráða að borða móður sína til að losa sig við líkið og verks­um­merkin. Hann sagðist ekki sjá eftir neinu þar sem móðir hans hefði „gert lífið ó­bæri­legt.“

Í frétt BBC kemur fram að rétturinn hafi hafnað vörn Alber­to, sem full­yrti að hann hefði verið í geð­rofi á meðan morðið átti sér stað. Hans bíður því fimm­tán ára fangelsis­dómur fyrir morðið á Mariu og fimm mánuði að auki fyrir að hafa sví­virt lík hennar. Þá hefur honum verið gert að greiða bróður sínum skaða­bætur sem nema 60 þúsund evrum, eða rúmum 8,8 milljónum ís­lenskra króna.