Í dag staðfesti Veirufræðideild Landspítala nýtt mislingatilfelli og er það fimmta tilfellið sem staðfest hefur verið frá því 18. febrúar síðastliðin. Fyrir hafa tveir fullorðnir og tvö börn verið staðfest smituð á Íslandi.

Í tilkynningu frá embætti landlæknist segir að einstaklingurinn sem er sá fimmti sem smitast hafi komist í snertingu við þann aðila sem kom með flugi til Egilsstaða þann 15. febrúar og greindist síðar með mislinga.

Sjá einnig: Bólu­­setningar­á­­tak vegna fimmta mislingasmitsins

Á fundi sóttvarnalæknis í morgun með Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA), Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Landspítala (LSH) var því tekin ákvörðun um að hvetja eftirtalda forgangshópa á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu til að þiggja bólusetningu við mislingum. 

Forgangshópar eru:

Allir sem eru óbólusettir og fæddir á bilinu 1. janúar 1970 – 1. september 2018 (6 mánaða – 49 ára).

Þeir einstaklingar sem útsettir hafa verið fyrir mislingasmiti ásamt þeirra nánasta umgangshópi.

Þessir hópar eru hvattir til að mæta í bólusetningu sem fyrst. Það er frá og með deginum í dag. Boðið verður upp á opnar bólusetningar strax um helgina á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu fyrir þessa hópa og eru staðsetningar auglýstar á heimasíðum Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Þeir einstaklingar sem hafa verið bólusettir eða hafa fengið mislinga þurfa ekki frekari bólusetningu. 

Almenningi er bent á að skoða bólusetningaskírteini sín varðandi skráðar bólusetningar. Hafi þau ekki skírteinin hjá sér er hægt að hafa samband við netspjall heilsugæslunnar hér.

Nánari upplýsingar er að finna á vef landlæknis og heilsugæslunnar. Áfram eru veittar upplýsingar um mislinga í síma 1700.