Renault hefur kynnt nýjan Clio á bílasýningunni í Genf sem nú stendur yfir. Þetta er fimmta kynslóð bílsins sem fyrst kom fram árið 1990 og nú, fimmtán milljónum eintaka síðar, hefur Clio aldrei verið jafn glæsilegur útlits eða tæknilega fullkomnari. Bíllinn fer á markað í haust og kemur um það leyti í sýningarsalinn hjá BL við Sævarhöfða.

Hefur sterka nærveru

Clio er söluhæsti bíll Renault og hefur verið einn vinsælasti smábíll Evrópu allar götur frá því að hann kom fyrst á markað. Auk nýs undirvagns hefur ytri ásýnd bílsins tekið fáguðum en um leið sportlegum breytingum í ætt við Mégane þar sem hönnun vélarhlífar með upphækkuðum miðjuhluta, stærra grilli og endurhönnuðum framljósum kalla fram sterka og fallega nærveru. Um leið hafa hönnuðirnir þó gætt þess að umturna ekki því sem viðhaldið hefur einstökum vinsældum bílsins í þessa tæpu þrjá áratugi og þess vegna fer það ekki fram hjá neinum að hér er Clio enn á ferðinni.

Nýtt farþegarými

Breytingarnar verða á hinn bóginn áberandi þegar dyrnar eru opnaðar því farþegarýmið hefur verið endurhannað frá grunni og er á alla lund hið glæsilegasta í ásýnd og efnisvali. Ný sæti, nýr og stærri smertiskjár fyrir upplýsinga- og afþreyingakerfið og fleira blasir strax við auk stafræns „ökumælis“ sem leyst hefur af hólmi eldri skjá í mælaborðinu. Hægt verður að velja um nokkrar mismunandi útfærslur á hönnun farþegarýmisins í nýjum Clio. Þótt nýr bíllinn sé 14 mm styttri en forverinn er innra rýmið engu að síður meira og farangursrýmið t.d. 91 lítra stærra þrátt fyrir að hæð yfirbyggingarinnar hafi verið lækkuð örlítið til að auka loftflæði og sportlega ásýnd Clio sem m.a. verður boðinn á 17“ felgum í völdum útfærslum. Hann verður auk þess fáanlegum í tvinnútgáfu, fyrstur fólksbíla Renault.

Tvisvar verið kjörinn „Bíll ársins“ í Evrópu

Renault Clio var fyrst kynntur til leiks árið 1990. Clio er söluhæsta gerð Renault enda einn vinsælasti litli bíllinn á Evrópumarkaði, þar sem hann er jafnan í 1. eða 2. sæti á lista yfir söluhæstu bílana í sínum flokki. Þá hefur hann lengi verið sá söluhæsti í sínum flokki í heimalandinu og á síðasta ári var hann það einnig í Portúgal og Slóveníu svo dæmi séu tekin. Clio er einn af einungis þremur fólksbílum í sínum flokki á markaðnum sem tvisvar sinnum hefur verið kjörinn „Bíll ársins“ í Evrópu. Aðdáendur geta því farið að hlakka til haustsins þegar BL kynnir nýjan og enn flottari og tæknivæddari Clio.