Nú ríður fimmta hitabylgjan yfir Norður-Indland síðan í mars. Í gær fór hitinn í 49°C í Delí. Meðalhitinn síðustu mánuði er sá hæsti í 122 ár, síðan mælingar hófust.

Lítið er um áreiðanleg töluleg gögn varðandi andlát vegna hitans en ljóst er að fjöldinn hleypur á hundruðum það sem af er ári.

Sjónarvottar lýsa í samtali við VICE World News að fuglar hrapi úr loftunum vegna hitans og dýraspítalar hafa opnað sérdeildir til að taka á móti villtum dýrum með hitaslag.

Haft er eftir sérfræðingi hjá indversku veðurstofunni að hitabylgjuna megi rekja til staðbundinna umhverfisþátta. Þá hefur sérfræðingur hjá IITM-veðurstofunni á Indlandi bent á að í grunninn megi rekja hitann til loftslagshlýnunar af mannavöldum.