„Þegar alþjóðadeildin var fyrst stofnuð við skólann árið 2015 voru 24 erlendir nemendur skráðir hjá okkur. Undanfarin ár hefur þeim fjölgað talsvert, en núna erum við með rúmlega 130 nemendur í alþjóðadeildinni og um 230 í íslensku deildinni,“ segir Ingibjörg Jóhannsdóttir, skólastjóri Landakotsskóla.
Í síðustu viku var ný álma tekin í notkun sem stækkar skólann um fjórar skólastofur. Ingibjörg segir að slíkt hafi verið löngu tímabært.
„Við erum búin að vera í vandræðum með pláss, þar sem við tókum við nýjum nemendum núna í haust. Þannig að við erum búin að vera að leigja stofu út á Hallveigarstöðum. Nýja álman er kærkomin viðbót, en að því sögðu þyrftum við þó í rauninni að fá aðeins meira pláss þar sem allir bekkir, bæði í íslensku deildinni og alþjóðadeildinni, eru svo til fullir,“ segir Ingibjörg.
Að sögn Laurie Anne Berg, deildarstjóra alþjóðadeildarinnar, hefur alþjóðlegum nemendum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Þó hafi hlutfall barna frá Indlandi hækkað mest allra þjóðerna.
„Við erum með rúmlega fimmtíu indverska nemendur, sem er mikil breyting frá síðustu árum. Við höfum ekki talið fjölda tungumálanna sem nemendurnir tala sín á milli, en þjóðernin eru alls fjörutíu og tvö,“ segir Laurie.
Alþjóðadeildin vinnur út frá Cambridge-námskránni sem Laurie segir að gefist mjög vel. Í skólanum séu bæði íslenskumælandi sem og enskumælandi kennarar, sem gefi skólanum alþjóðlegan blæ.
„Kennslan við alþjóðadeildina fer fram á ensku og það er skemmtilegt að sjá hversu vel nemendunum er að takast að aðlagast íslensku skólasamfélagi, sama frá hvaða landi þau koma,“ segir Laurie.
„Krakkarnir tala oft um hversu mikið þau elska að búa á Íslandi. Hér sé svo mikið frelsi. Fyrir mörg er það mikil nýbreytni að geta verið úti án þess að það sé verið að hafa eftirlit með þeim,“ bætir hún við.
Aðspurð segir Laurie ástæðurnar að baki veru barnanna hér á landi af ýmsum toga.
„Við erum til dæmis með nemendur sem eiga foreldra sem eru erindrekar hér á landi. Þá eru sum hingað komin vegna atvinnutækifæra foreldra og sum vegna stríðsins í Úkraínu. Þannig að ástæðurnar eru alls konar. En það er svo fallegt að sjá bæði úkraínska og rússneska nemendur saman í bekk, hlið við hlið. Að sjá svona marga menningarheima koma saman og verða eitt samfélag,“ segir Laurie.