Fimm karlmenn hafa verið ákærðir fyrir stórfellda framleiðslu á 117,6 kílógrömm af amfetamíni í sölu og dreifingarskyni.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en allur gangur var á afstöðu ákærenda sem ýmist neituðu sök, játuðu eða játuðu að hluta. Ólafur Ágúst Hraundal játaði og neitaði á víxl.

Anna Barbara Andradóttir sækir málið fyrir hönd héraðssaksóknara málið er með þeim stærstu sinnar tegundar hér á landi.

Þeir Guðlaugur Agnar Guðmundsson, Guðjón Sigurðsson, Halldór Margeir Ólafsson, Ólafur Ágúst Hraundal og Geir Elí Bjarnason eru allir ákærðir fyrir skipulagða brotastarfsemi og stórfelld fíkniefnalagabrot sem ákærðu sammæltust um að fremja að því er fram kemur í ákærunni.

Rannsókn á málinu hófst fyrir tveimur árum þegar lögreglan fékk aðgang að samskiptum á ís­lensku í dul­kóðuðu for­riti, sem franska lög­reglan braust inn í. Lögreglan handtók menninga fyrir fjórum mánuðum og voru þeir allir dæmdir í gæsluvarðhald.

Lögreglan lagði hald á umtalsvert magn af marijúana, um 40 kg, en leitir voru framkvæmdar á allmörgum stöðum, bæði í húsum og ökutækjum. Um var að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna, auk peningaþvættis, en lögreglan tók einnig í sína vörslu ökutæki, peninga og tölvubúnað. Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, en við þær naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi.

Földu amfetamínvökva í saltdreifara

Í ákærunni kemur fram að þeir Guðlaugur Agnar, Guðjón og Halldór Margeir hafi árið 2020 staðið saman að innflutningi á saltdreifara sem í voru faldir 53 litrar af amfetamínvökva. Fengu þeir vökvann frá aðilum í Hollandi. Tækið var geymt heima hjá Guðjóni á Hellu og var efnið fjarlægt úr tækinu til að framleiða 117,5 kg af amfetamíni. Guðjón og Halldór eru sagðir hafa sammælst um þáttöku að starfseminni í skilaboðum í gegnum samskiptaforritið Encrochat.

Guðjón, Halldór Margeir, Geir Elí og Ólafur Ágúst eru sömuleiðis ákærðir fyrir að hafa staðið saman að kannabisræktun í útihúsi við heimili Guðjóns á Hellu. Lögreglan lagði hald á rúmlega sex kíló af kannabisplöntum, rúm 16 kíló af marijúana og 131 kannabisplöntur í aðgerð lögreglu 20. maí síðastliðinn.

Ólafur Ágúst er sakaður um að hafa haft í vörslum sínum sínum talsvert magn af fíkniefnum á þremur stöðum. Við leit lögreglu fannst talsvert magn af amfetamíni, kókaíni, MDMA, metamfetamíni, amfetamínvökva, MDMA vökva, rúmlega sjö þúsund stykki af MDMA töflum í bílskúr að Arnarhrauni í Hafnarfirði. Sömuleiðis fannst kannabisvökvi og lítið magn af kókaíni í bílnum sínum að Vesturhrauni í Garðabæ. Lögreglan fann einnig amfetamín, hass, kókaín, maríjúana, metamfetamín, amfetamínökva, LSD, MDMA og kannabisblandaðan vökva í hesthúsi í Víðidal.

Halldór Margeir var tekinn með kókaín á heimili sínu að Hverfisgötu.