Bandaríski rithöfundurinn Gretchen Rubin hefur skrifað vinsælar bækur um hamingjuna og leitina að henni eins og The Happiness Project og Happier at Home og er vel meðvituð um tengingu góðra félagslegra tengsla við hamingjuna. Rubin hefur enn fremur skrifað bók um vana, Better Than Before, og hefur velt fyrir sér hvaða vana væri hægt að temja sér til að stuðla að góðum félagslegum tengslum. Hvað hentar hverjum fer til dæmis eftir aldri og áhugamálum. Hér koma fimm venjur frá henni.

Gerðu að vana að vera með opinn huga


Því miður getur einmanaleiki gert það að verkum að fólk verður neikvæðara, gagnrýnna og dómharðara. Fólk sem finnur fyrir einsemd virðist ekki vera eins opið fyrir nýjum vinskap og aðrir. Ef þú telur að einmanaleikinn sem þú finnur fyrir hafi áhrif á þig á þessa vegu, skaltu berjast markvisst á móti því.


Gerðu að vana að fá góðan svefn


Einmanaleiki og slæmur svefn geta tengst og það getur verið merki um einsemd að vera lengi að sofna, vakna oft á nóttunni og vera þreyttur á daginn. Það að vera svefnvana er slæmt fyrir andlega heilsu, hefur áhrif á orkuna og getur valdið veikindum. Þetta hefur áhrif á allt annað svo það er mikilvægt að hafa svefninn í lagi.


Gerðu að vana að tengjast öðru fólki


Þetta er kannski augljóst en mikilvægt. Farðu með vinnufélögunum í mat, taktu þátt í leshring, gakktu í kór, farðu á jóganámskeið eða í gönguklúbb.


Gerðu að vana að hlúa að öðrum


Þú getur boðist til að passa börn nágranna einu sinni í viku, farið út að ganga með hund nágranna, haldið matarboð, miðlað af þekkingu þinni á námskeiði, fengið þér gæludýr eða hjálpað meira til við heimilisstörfin. Það að gefa öðrum stuðning hjálpar til við að skapa tengsl. Fyrir hamingju er mikilvægt að veita stuðning, rétt eins og að fá hann.


Gerðu að vana að endurskoða líf þitt


Ef þú ert einmana, skoðaðu virkilega hvað veldur. Er það út af því að þú saknar þess að eiga besta vin, eða að vera hluti af hóp? Eða saknar þú þess að eiga maka, eða hafa þægilega nærveru hins kunna í kringum þig á heimilinu? Það eru til margar gerðir af einmanaleika. Það er ef til vill ekki skemmtilegt að hugsa um þetta en um leið og þú skilur hvers þú saknar er auðveldara að takast á við vandamálið.

Ungt fólk víða einmana


Einmanaleiki er ekki bara áberandi hjá ungu fólki á Íslandi, eins og fram kemur í aðalumfjöllun í Tilverunni í Fréttablaðinu í dag, heldur víðar um heiminn. Á síðasta ári leiddi landskönnun í Bandaríkjunum í ljós að flestir fullorðnir Bandaríkjamenn eru einmana. Þátttakendur í könnun Cigna voru rúmlega 20.000 Bandaríkjamenn eldri en 18 ára. Könnunin leiddi í ljós að yngsti aldurshópurinn er mest einmana.


Svipað er uppi á teningnum í Bretlandi samkvæmt nýrri könnun YouGov, sem segir aldamótakynslóðina vera mest einmana. Alls sögðust 30% aldurshópsins 23-28 ára vera alltaf eða oft einmana. Einn af hverjum fimm í þessum aldurshópi sagðist ekki eiga neina vini en 27% enga nána vini og 30% engan besta vin. Þessar tölur voru mun hærri hjá þessum hópi en í öðrum aldurshópum.