Ef litið er fram­hjá grímunum á and­litum tón­leika­gesta mætti halda að við séum komin aftur til þess tíma þegar tón­leikar og aðrir stór­við­burðir gátu farið ó­hindrað fram. Kórónu­veirufar­aldurinn hefur sett stórt strik í reikninginn og hafa fjölda­sam­komur legið niðri víðast hvar undan­farið ár.

Í gær­kvöldi fóru hins vegar fram stór­tón­leikar í Barcelona þegar fimm þúsund manns komu saman á rokk­tón­leikum í Palau Sant Jord-tón­leika­höllinni. Far­aldurinn hefur haft mikil á­hrif á Spáni og er veiran enn býsna út­breidd í landinu og er Barcelona þar engin undan­tekning.

Guar­dian fjallar um þetta og greinir frá því að tón­leika­gestir hafi allir farið í sýna­töku fyrr þennan sama dag. Var mark­miðið meðal annars að skoða hvort veiran dreifi sér í marg­menni, að því gefnu að við­staddir hafi farið í sýna­töku sama dag og beri grímu í hæsta gæða­flokki fyrir and­litinu. Engar kvaðir voru settar á fjar­lægðar­mörk og mátti fólk í raun standa eins þétt upp við næsta mann og það vildi.

Það voru sam­tök sem til­einka starf sitt rann­sóknum á HIV og smit­sjúk­dómum sem stóðu fyrir við­burðinum. Fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma var hvatt til að kaupa ekki miða á tón­leikana. Miða­verð var frá 23 og upp í 28 evrur en inni­falið í því var and­lits­gríma og skimun. Segja skipuleggjendur að um hafi verið að ræða stærstu fjöldasamkomuna innanhúss í Evrópu síðan faraldurinn hófst fyrir rúmu ári.

Tón­leika­gestir voru nokkuð á­nægðir með hvernig tókst til ef marka má um­fjöllun Guar­dian. „Við fengum tæki­færi til að flýja raun­veru­leikann í smá stund og rifja upp hvernig hlutirnir voru áður en far­aldurinn skall á,“ segir Jose Parejo sem mætti á tón­leikana og naut sín vel.

Hér að neðan má sjá myndir frá tón­leikunum í gær­kvöldi.

Mynd/Getty Images
Mynd/Getty Images