Landris í kringum Vatnajökul hefur ekki mælst meira frá því nákvæmar mælingar hófust fyrir um þremur áratugum, en það nemur nú ríflega fimm sentimetrum á ári. Ætla má að landrisið næst jöklinum jafngildi að minnsta kosti á annars metra hækkun á þessum tíma.
Guðmundur Valsson, fagstjóri landmælinga hjá Landmælingum Íslands, segir ástæðu þessa vera þá að jökullinn hopar hratt og fargið minnkar sem því nemur. Við það lyftist landið í kring.
„Í fyrstu var landrisið á þessum slóðum aðeins byggt á getgátum, en eftir að þéttu neti mælipunkta var dreift yfir allt landið í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar hefur reynst miklum mun auðveldara að leggja mat á landrisið,“ segir Guðmundur.
Hann segir að ætla megi að landrisið við Vatnajökul hafi numið um tveimur sentimetrum á ári á síðasta áratug liðinnar aldar, en á milli áranna 2004 og 2016, þegar jarðvísindamenn hafi getað stuðst við enn nákvæmari hæðarmæla, hafi landrisið reynst vera rúmir fjórir sentimetrar á ári.
„Síðustu mælingar okkar frá 2020, sem við höfum verið að vinna úr, sýna svo ekki verður um villst að landrisið er enn að aukast – og er komið yfir fimm sentimetra á ári,“ segir Guðmundur.