Fimm sendi­full­trúar frá Rauða krossinum á Ís­landi halda á næstu dögum til mann­úðar­starfa vegna á­takanna sem geisa í Úkraínu. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Rauða krossinum.

Rauði krossinn er að störfum bæði í Úkraínu og ná­granna­löndum, sam­kvæmt til­kynningunni, og hefur meðal annars sett upp bráða­birgða­hús­næði við landa­mæri.

Sjálf­boða­liðar Rauða krossins við landa­mæri Úkraínu dreifa mat­vælum, vatni, teppum og öðrum nauð­synja­vörum til flótta­fólks auk þess að veita þeim læknis­hjálp og sál­rænan stuðning.

„Rauði krossinn leggur mikla á­herslu á að deilu­aðilar virði al­þjóð­leg mann­úðar­lög, hlífi ó­breyttum borgurum og tryggi öruggar flótta­leiðir sem og að hjálpar­sam­tök geti komið með lífs­nauð­syn­leg hjálpar­gögn til þol­enda á­takanna,“ segir í til­kynningunni.

Fólk á vegum Rauða krossins hafa einnig verið við störf í Maríu­pol þar sem eru erfiðar að­stæður og illa gengur að koma fólki burt frá á­tökunum.

34 milljónir í neyðarsöfnun

Þeir fimm sendi­full­trúar sem fara á næstu dögum til Úkraínu eru Þór Daníels­son, Sig­ríður Björk Þor­mar, Þóra Kristín Ás­geirs­dóttir, Karl Júlíus­son og Jordi Cor­tes.

Þór er við­skipta­fræðingur með meistara­gráðu í þróunar­fræðum. Hann fer til Búda­pest þar sem hann mun sinna björgun og sam­vinnu á vett­vangi. Þór hefur áður að­stoðað flótta­fólk í Tajikistan, Króatíu, Bosníu og Hersegóvínu og Zaire.

Sig­ríður er sál­fræðingur og hjúkrunar­fræðingur sem mun sam­ræma að­gerðir tengdar sál­rænum stuðningi í Búda­pest. Hún hefur áður starfað sem leið­beinandi í sál­rænum stuðningi meðal annars í Malaví, Úganda, Simba­b­ve, Indónesíu og víða um Evrópu.

Jordi Cortes (uppi til vinstri), Þóra Kristín Ás­geirs­dóttir (uppi til hægri), Sig­ríður Björk Þor­mar (niðri til vinstri) og Þór Daníels­son (niðri til hægri).
Samsett mynd/Rauði krossinn Íslandi

Þóra er deildar­stjóri al­manna­varna­nefndar höfuð­borgar­svæðisins með meistara­gráðu í neyðar­stjórnun. Hún mun sinna starfi á sviði sam­fé­lags­legrar þátt­töku og á­byrgð í Ung­verja­landi.

Karl mun starfa innan Úkraínu en hann er af­brota­fræðingur sem hefur starfað fyrir öryggis­teymi Al­þjóða­sam­band Rauða krossins og Rauða hálf­mánans (IFRC) í Genf síðan 2006.

Jordi er með meistara­gráðu í al­þjóða­sam­skiptum með á­herslu á við­brögð í neyðar­að­gerðum og mun starfa sem sendi­full­trúi á sviði verndar, jafn­réttis og þátt­töku án að­greiningar þar sem þörf er á hverju sinni. Jordi hefur verið sjálf­boða­liði hjá Rauða krossinum á höfuð­borgar­svæðinu í fé­lags­legum stuðningi við flótta­fólk.

Í til­kynningunni segir að lík­legt sé að fleiri sendi­full­trúar muni fara til starfa á næstu vikum og mánuðum.

„Auk vinnu­fram­lags þeirra hefur nú þegar safnast um 34 milljónir króna í neyðar­söfnun Rauða krossins og utan­ríkis­ráðu­neytið hefur styrkt starf­semi Rauða krossins um sam­tals 95 milljónir króna,“ segir í til­kynningunni.