Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari á ekki von á því að óskað verði eftir yfirmati, á þessu stigi, um dánarorsök konu sem lést í lok mars á þessu ári. Eiginmaður hinnar látnu hefur verið ákærður fyrir að hafa orðið henni að bana, en réttarkrufning benti til þess að hún hefði verið kyrkt.

Hinn ákærði sat í gæsluvarðhaldi frá því hann var handtekinn í byrjun apríl þangað til hann var látinn laus í síðustu viku en Landsréttur felldi þá úr gildi úrskurð héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald.

Dánarorsök mögulega ofneysla lyfja og áfengis

Í úrskurði Landsréttar er vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna frá 30. september en í henni segir að mögulegt sé að konan „hafi látist af völdum blöndunar­eitrunar af klórdíasepoxíði, lífefna þess og áfengis“. Jafnframt segir þar að ekki sé unnt að staðfesta að kraftbeiting gegn hálsi hafi átt sér stað rétt fyrir andlátið, heldur kynni hún að hafa átt sér stað allt að þremur dögum fyrir það.“

Kolbrún segist ekki geta tjáð sig um efni málsins þar sem dómari hafi ákveðið að loka þinghaldi. Hún segir þó að fimm réttarmeinafræðingar hafi nú þegar komið að málinu. Tveir hafi komið að réttarkrufningu eftir andlát konunnar. Einn til hafi verið dómkvaddur á rannsóknarstigi málsins og tveir í viðbót eftir að ákæra var gefin út. Hinum síðastnefndu hafi ekki verið falið að leggja heildstætt mat á dánarorsök, heldur að svara tilteknum spurningum.

Ekki farið fram á yfirmat á þessu stigi

„Ég á von á því að þeir réttarmeinafræðingar sem komið hafa að málinu verði kvaddir fyrir dóm til að svara spurningum við aðalmeðferð málsins,“ segir Kolbrún. Það er svo dómari málsins sem metur hvað telst sannað.

Stefnt er að því að aðalmeðferð málsins fari fram í Héraðsdómi Reykjaness um miðjan næsta mánuð, en fyrir liggur að auk réttarmeinafræðinga, geðlæknis, sálfræðings og annarra vitna, muni ákæruvaldið kalla þrjú börn brotaþolans til skýrslugjafar við aðalmeðferðina. Ákvörðun um lokun þinghalds var tekin með hagsmuni þeirra að leiðarljósi og vegna myndefnis sem varpa þurfi á skjái í dómsal, meðal annars um krufningu.