Fimm stór sveitarfélög hafa skipulagt eða eru byrjuð að byggja nýja miðbæi. Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær, Akureyri og Árborg, hvert hefur sinn háttinn á en með sömu grunnstef.

Í Mosfellsbæ er verið að þétta íbúðabyggðina, í Hafnarfirði stendur til að nýta höfnina betur og reisa mathöll en á Selfossi í Árborg mun rísa miðbær í gömlum stíl.

Trausti Valsson, prófessor emeritus í skipulagsfræði, segir að það sé algengt að sveitarfélög kynni ný og spennandi verkefni, sérstaklega fyrir kosningar. Hvort þau verði öll efnd er annað mál.

„Ég man eftir hugmyndum Garðbæinga og Kópavogsbúa um að byggja upp vísindaþorp en það varð ekkert úr því. Í staðinn kom íbúðabyggð,“ segir hann.

Af þeim nýju miðbæjum sem kynntir hafa verið telur Trausti Selfoss þann athyglisverðasta. Uppbyggingin er þegar hafin og verður formlega tekin í notkun í sumar. Í miðbænum eru að rísa hús sem eiga sér fyrirmyndir í horfnum íslenskum byggingum alls staðar á landinu.

„Þetta er nýlunda og mér líst ekki illa á hugmyndina,“ segir Trausti. „En það á eftir að koma í ljós hvernig þetta kemur út og starfsemin verður að vera heillandi og laða að sér ferðaþjónustu.“

Þar verður einnig mathöll með átta veitingastöðum, skrifstofur, íbúðir, bar og sýning um matarmenningu landsins og skyrið sérstaklega. Hringvegurinn verður hins vegar færður fram hjá bænum úr miðbænum sjálfum.

Í Mosfellsbæ er verið að þétta miðbæinn verulega og stendur til að byggja alls 250 nýjar íbúðir. Alls verður byggt á þremur svæðum í miðbænum og stór hluti íbúðanna er ætlaður fólki yfir fimmtugu.

Í miðbæ Kópavogs verða hús allt að 12 hæðum og mannlífsás í gegnum hann.

Í Kópavogi er einnig verið að þétta miðbæinn og samþykktar hafa verið 550 íbúðir, húsin eru allt frá einni hæð upp í tólf. Einnig er gert ráð fyrir verslun og þjónustu en gömlu bæjarskrifstofurnar að Fannborg verða rifnar.

Byggð verður göngu- og hjólagata, svokallaður mannlífsás, frá Menningarhúsinu að Kópavogsskóla. Verður hugað að skiptistöðinni í Hamraborg þar sem tvær Borgarlínuleiðir muni hafa stoppistöð.

Á Akureyri stendur til að breyta Glerárgötu, Skipagötu og Hofsbót og að nýr hjólastígur verði samhliða Skipagötu. Allar nýjar byggingar sem reistar verða verði að hafa reiðhjólageymslur og byggð verður upp lifandi starfsemi, svo sem veitingastaðir, menningarstarfsemi og verslanir.

Hafnfirðingar ætla að byggja upp stærri hluta hafnarinnar, suður að Hvaleyrarlóni. Þá stendur til að reisa mathöll við gamla Súfistann með fjórum eða fimm veitingastöðum.

Trausti segir sömu lögmál gilda hjá þessum fimm sveitarfélögum, sem öll eru meðal þeirra fjölmennustu á Íslandi, og Reykjavík.

„Áður fyrr voru miðbæir fyrst og fremst stjórnsýslu- og verslunarmiðstöðvar. Nú er komin krafa hjá ungu fólki um að búa í lifandi borgarumhverfi, þar sem hægt er að fara út á öllum tímum sólarhringsins til að fá sér mat, kaffi og öl,“ segir hann.

Á Akureyri verða húseigendur skyldaðir til að hafa hjólreiðageymslur.