„Ef það á að telja foreldrum trú um að húsnæði Fossvogsskóla sé í lagi, þá þarf að taka sýni,“ segir Karl Óskar Þráinsson, formaður foreldrafélags Fossvogsskóla.

Hluta skólans var lokað tímabundið í fyrra vegna myglu og ráðist í framkvæmdir upp á tæpan hálfan milljarð króna.

Fréttablaðið hefur rætt við foreldra fimm barna við skólann sem segja allir að börnin finni áfram fyrir einkennum eftir að skólinn var opnaður á ný eftir viðgerðirnar síðasta haust. Karl Óskar segir fleiri finna fyrir einkennum.

Öll börnin fimm eiga það sameiginlegt að einkenni þeirra hverfa þegar þau breyta um umhverfi. Dæmi eru um blóðnasir, magaverki og slæma höfuðverki eftir dvöl í húsnæðinu.

Einkennin eru mest í vesturbyggingu skólans og kennslueldhúsi. Eitt foreldri segir háan kostnað fylgja því að leita til sérfræðinga. Sendu foreldrarnir erindi á bæði skólastjórnendur og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar fyrr í vetur vegna málsins.

Skólanum var lokað í kjölfar sýnatöku sem ráðist var í eftir kvartanir foreldra. Skömmu áður hafði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur tekið húsnæðið út og gefið því góða einkunn.

Í svari Reykjavíkurborgar segir að búið sé að fjarlægja allt skemmt efni eftir ítarlegar úttektir verkfræðistofa, koma í veg fyrir frekari leka og laga og lagfæra allt sem úttektaraðilar mæltu með. Þá hafi skólinn verið þrifinn hátt og lágt.

„Húsnæðið hefur verið tekið út af heilbrigðiseftirliti sem gerir ekki frekari athugasemdir og því hefst skólastarf í þessari álmu að nýju á næsta skólaári,“ segir í svarinu.

Karl Óskar segir þörf á annarri sýnatöku.

„Úttekt heilbrigðiseftirlitsins er ekki trúverðug þegar miðað er við allt sem á undan er gengið. Ég tel augljóst að ekki hafi tekist að komast fyrir vandann og því sé þörf á að taka fleiri sýni. Það gengur ekki að borgin útiloki börn frá námi með þessum hætti.“

„Það er ekki hægt að ætlast til þess að börn sem verða veik við að fara inn í herbergi séu skylduð til að gera það,“ segir Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, en hún sá um að greina sýnin sem tekin voru úr Fossvogsskóla áður en honum var lokað að hluta í fyrra.

Foreldrar sem Fréttablaðið hefur rætt við segja að einkennin hverfi þegar börnin séu ekki í skólanum, þá helst vesturbyggingu skólans. Einkennin hafi lagast þegar börnin hafi stundað nám í öðru húsnæði.

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gerði úttekt á húsnæði skólans í desember síðastliðnum í kjölfar kvartana um að nokkrir nemendur fyndu fyrir óþægindum í öndunarfærum og húð. Heimilisfræðistofan og íþróttahúsið voru skoðuð sérstaklega.

Segir í skýrslunni að loftgæði virki góð og að engin óvenjuleg lykt sé greinanleg. Þá hafi verið kveikt á loftræstingu í íþróttahúsnæðinu þar sem loftgæði voru ekki fullnægjandi.

Guðríður Gyða segist ekki geta fullyrt að mygla sé í húsnæðinu en einkenni barnanna, höfuðverkur, blóðnasir og ógleði, séu dæmigerð fyrir slíkt. „Þeir sem hafa farið yfir sín þolmörk fá mikla næmni, það þarf ekki að vera mikið til að þeir einstaklingar finni fyrir einkennum.“

Hefur hún efasemdir um að úttekt heilbrigðiseftirlitsins nái til sveppaeiturefna í lofti. Gróin séu smá, á stærð við minnsta svifryk, það sé vel mögulegt að ekki hafi náðst að hreinsa allan sveppagróður.

„Fólk sem er næmt fyrir sveppum er oftast besti mælikvarðinn á hvort eitthvað sé að í rýmum,“ segir Guðríður Gyða. „Það er spurning hvort skólayfirvöld neyðist ekki til að loka þeim rýmum þangað til búið er að finna hvað er að.“