Í apríl og maí eyddi Vatnajökulsþjóðgarður meira en fimm milljónum króna í lögfræðiþjónustu. Á sama tímabili keypti þjóðgarðurinn, ein ríkisstofnana ef Þjóðleikhúsið er frátalið, áfengi og tóbak fyrir tæplega 300 þúsund krónur. Þetta má sjá á vefnum opnirreikningar.is. Þar er hægt að skoða upplýsingar um greidda reikninga ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins.

Vatnajökulsþjóðgarður eyddi 56,4 milljónum króna umfram áætlanir í aðkeypta þjónustu í fyrra. Frávikin eru helst vegna kaupa á verkfræði- og lögfræðiþjónustu. Þetta kemur fram í skýrslu sem Capacent vann fyrir ráðuneytið en strax í kjölfar útkomu hennar var skipt um yfirstjórn í þjóðgarðinum. Skýrslan afhjúpaði meðal annars óráðsíu í rekstri, samskiptaörðugleika og mikla framúrkeyslu launakostnaðar.

Sjá einnig: Kolsvört skýrsla afhjúpar 800 þúsund króna meðallaun

Í skýrslunni kemur fram að lítið traust hafi ríkt á milli stjórnar og framkvæmdastjóra. „Það er lýsandi fyrir þá stöðu sem stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs er komin í að stjórnarformaður finni sig knúinn að leita til annarrar lögmannsstofu en þeirrar sem framkvæmdastjóri hefur leitað til varðandi lögfræðileg málefni. Undir eðlilegum kringumstæðum ættu stjórn og framkvæmdastjóri að vinna saman að hagsmunum þjóðgarðsins og engin þörf að vera fyrir það að stjórn hafi sérstakan lögmann í því að gæta sinna hagsmuna.“

Á vefnum opnir reikningar má finna greidda reikninga Vatnajökulsþjóðgarðs aftur til 3. apríl. Engar skýringar er að finna um hvers vegna eldri reikningar hafa ekki birst þar, en vefurinn opnaði í september í fyrra. 

Athygli vekur að Vatnajökulsþjóðgarður keypti áfengi  sex skipti í apríl og maí. Samkvæmt upplýsingum frá Vatnajökulsþjóðgarði hefur garðurinn vínveitingaleyfi og selur áfengi í veitingastofu sinni í Skaftafelli. Samtals var slíkur varningur keyptur fyrir rúmar 288 þúsund krónur. 

Aðeins ein önnur stofnun, Þjóðleikhúsið, hefur keypt áfengi samkvæmt vefnum, en leikhúsið selur einnig áfengi.

Tuttugu reikningar til Lex á tveimur mánuðum

Þegar greiddir reikningar vegna lögfræðiþjónustu eru skoðaðir fyrir apríl og maí sést að þjóðgarðurinn greiddi 20 reikninga lögmannsstofnunar Lex, fyrir samtals tæpar 3,5 milljónir króna í þessum tveimur mánuðum. Þjóðgarðurinn greiddi einn reikning frá Landslögum upp á tæplega 1,6 milljónir króna og einn reikning upp á 310 þúsund krónur frá Réttsýn.

Samtals nemur greiddur lögfræðikostnaður Vatnajökulsþjóðgarðs í apríl og maí 5.346.752 kr. Ekki hefur náðst samband við skrifstofur Vatnajökulsþjóðgarðs í morgun, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Því hefur ekki tekist að spyrjast fyrir um áfengiskaup og lögfræðiþjónustu.

Magnús Guðmundsson tók við stöðu framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs í fyrradag en Þórður H. Ólafsson, hefur látið af störfum. Þá hefur Ármann Höskuldsson, stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs, hætt sem formaður stjórnar.

Uppfært: 14. júní klukkan 13:17 - Þær skýringar fengust frá fjármálastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs að áfengiskaupin séu til komin vegna sölu áfengra veiga í veitingastofu í Skaftafelli. Fréttin hefur verið uppfærð í samræmi við það.