Karl­maður sem myndaði átta fórnar­lömb nakin, þar með talið dóttur sína, á símanum sínum á milli skil­rúma í búnings­klefum í­þrótt­ma­ið­stöðvarinnar á Þing­eyri hefur verið dæmdur í fimm mánaða skil­orðs­bundið fangelsi. Dómur yfir manninum var kveðinn upp þann 7. nóvember síðast­liðinn.

Líkt og Frétta­blaðið greindi frá var maðurinn á­kærður fyrir að hafa tekið upp mynd­skeið á síma sinn af fimm ungum stúlkum sem fæddar eru á árunum 2003 til 2008, ungum dreng sem fæddur er árið 2018 og tveimur full­orðnum konum.

Brotin voru framin á árunum 2017 til byrjunar árs 2018. Beindi maðurinn mynda­­vél síma síns yfir skil­rúm milli búnings­­klefa karla og kvenna en á síma hans fannst fjöldi mynd­banda sem sýndu brota­þola nakta.

Maðurinn er á fimm­tugs­aldri og er hann eins og áður segir dæmdur í fimm mánaða fangelsi. Þá var honum jafn­framt gert að greiða fórnar­lömbum sínum saman­lagt tvær milljónir króna í bætur, 200 eða 300 þúsund til hvers. Manninum var auk þess gert að greiða tæp­lega 1,5 milljón króna í sakar­kostnað.

Maðurinn játaði sök og féllst á bóta­rétt en taldi bóta­kröfur of háar. Vitnað er til greinar­gerðar brota­þola í dóms­orði þar sem kemur fram að málið í heild hafi valdið brota­þolum miklu hugar­angri og valdið þeim á­hyggjum af því að myndirnar kæmust í dreifingu.

Þá segir að at­vik málsins bendi til þess að um ein­beittan á­setning hafi verið að ræða. Sak­borningur hafi meðal annars þekkt til eins brota­þola og því vitað hve gömul hún hafi verið. Hann hafi verið ná­granni brota­þola og faðir vin­kvenna hennar og því oft eytt tíma sínum á heimili sak­bornings og þekkt til hans og borið traust til hans.