Fimm létust í dag eftir að árás var gerð á kirkju í Suður-Afríku vegna deilna um yfir­ráð yfir henni. Lög­regla í landinu segir að gísla­taka hafi verið í kirkjunni og að tekist hafi að bjarga mörgum.

Lög­reglan hefur í dag hand­tekið að minnsta kosti 40 manns vegna á­rásarinnar og lagt hald á fjölda vopna. Kirkjan er stað­sett í út­jaðri Jóhannes­borgar.

Frétta­stofa BBC hefur það eftir sjónar­vottum á svæðinu að á­rásar­mennirnir til­heyri klofnings­hópi kirkjunnar sem vill fara með yfir­ráð yfir henni. Deilur um kirkjuna hafa staðið síðan að fyrrum leið­togi hennar lést árið 2016.

Lög­regla hafði áður verið kölluð til vegna deilnanna þegar fylkingarnar skutu hvor á aðra í ná­grenni hennar árið 2018.

Sam­kvæmt tals­manni lög­reglunnar var hún kölluð til þegar hópur á­rásar­manna tilkynnti gestum kirkjunnar í dag að þeir væru komnir til að taka yfir svæðið. Fjórir fundust látnir og höfðu þeir verið skotnir og brenndir inni í bílum sínum. Auk þeirra var öryggis­vörður, sem er talið að hafi ætlað að koma fólkinu til bjargar, einnig skotinn til bana.