Í það minnsta fimm eru látin og 40 særð eftir að stór jeppi keyrði inn í jóla­skrúð­göngu í út­hverfinu Waukesha í Milwaukee í Banda­ríkjunum í gær. Einn er í haldi lög­reglunnar sem er talinn bera á­byrgð á verknaðinum.

Í til­kynningu frá borgar­yfir­völdum segir að tala látinna og særðra geti hækkað því að margir hafi farið sjálfir á spítalann. Þar kemur fram að hluti borgarinnar sé enn lokaður og er fólki ráð­lagt að leita sér að­stoðar ef það þarf hana. Ekki er vitað hvort að árásin tengist hryðjuverkum.

„Það sem gerðist í dag í Waukesha er ó­geðs­legt og ég er sann­færður um að þeir verði sóttir til saka sem bera á­byrgð,“ sagði ríkis­sak­sóknari Milwaukee, Josh Kaul, eftir á­rásina.

Ók á fjölda barna

Á­rásinni var sjón­varpað auk þess sem fjöldi við­staddra tóku mynd­skeið af henni. Þar má, að sögn er­lendra miðla, sjá þegar jeppinn ekur í gegnum vegar­tálma og það sem virðist vera nokkur skot úr byssu en lög­reglu­maður á að hafa skotið á bílinn til að reyna að stöðva öku­manninn.

Þá má í öðru mynd­bandi sjá ungt barn dansa á götunni þegar bílinn ekur fram hjá henni áður en hann keyrir inn í skrúð­gönguna og á hóp dansara sem kölluðu sig „Dancing Grannies“ eða Dansansi ömmurnar. Hópurinn hefur greint frá því á sam­fé­lags­miðlum að þau bíði enn upp­lýsinga um á­stand þeirra sem var ekið á.

„Það voru dúskar, skór og heitt súkku­laði alls staðar. Ég þurfti að fara frá einum brotnum líkama til annars til að finna dóttur mína,“ sagði Cor­ey Monti­ho og að konan hans og tvær dætur hans hafi nærri orðið fyrir bílnum. Hann óskaði þess að beðið yrði fyrir öllum við­stöddum.

Auk dans­hópsins var ekið á kaþólskan prest og kaþólsk skóla­börn

Hluti borgarinnar er enn lokaður.
Fréttablaðið/EPA

Aflýsa skólahaldi

Eig­andi dans­stúdíós, Chris Germain sem hafði skipu­lagt þátt­töku í skrúð­göngunni, lýsir því að hafa rétt svo bjargað nokkrum stúlkum frá bílnum en svo eftir að bíllinn ók inn í skrúð­gönguna hversu hræði­legt á­standið var þegar hann gekk inn á vett­vanginn.

„Það voru lítil börn liggjandi á götunni, það voru lög­reglu­menn og sjúkra­liðar að reyna endur­lífgun á þeim sem tóku þátt í göngunni.“

Fram kemur í frétt AP að skóla­haldi hefur verið af­lýst í Waukesha í dag, mánu­dag, og að ráð­gjafar verði börnunum innan handar í skólunum.

Waukesha er út­hverfi í vestur Milwaukee og er í um 90 kíló­metra fjar­lægð frá borginni Kenosha þar sem að Kyle Ritten­hou­se var sýknaður síðasta föstu­dag en hann skaut þrjá menn til bana í ó­eirðum í borginni í ágúst árið 2020.

Mikill fjöldi var kominn saman til að fylgjast með skrúðgöngunni þegar árásin átti sér stað.
Fréttablaðið/EPA