Dæludagar Olís og ÓB eru á morgun um allt land. Í tilefni dagsins renna fimm krónur af hverjum seldum eldsneytislítra til Slysavarnafélagsins Landsbjargar, auk þess sem lykil- og korthafar Olís og ÓB fá 20 krónu afslátt.

„Olís hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum Slysavarnafélagsins Landsbjargar síðan 2012 og erum við afar stolt af því. Við hvetjum landsmenn til að dæla til góðs á Olís og ÓB á morgun og styðja þannig við starf sjálfboðaliða Landsbjargar um land allt," segir Jón Árni Ólafsson, sviðsstjóri Smásölusviðs Olís.

Þá hefur stuðningur Olís verið afar mikilvægur fyrir Slysavarnafélagið Landsbjörg þar sem allt leitar- og björgunarstarf félagsins byggist á sjálfsboðaliðastarfi.

„Olís boðið upp á sérstaka neyðaraðstoð og eru tilbúnir að opna afgreiðslustöðvar sínar að kvöld- og næturlagi ef björgunaraðgerðir eru í gangi til að björgunarsveitir hafi aðgang að eldsneyti og öðrum búnaði á öllum tímum sólarhringsins. Þetta er afar mikilvægt svo leitar- og björgunarstörf gangi sem best að nóttu sem degi og fyrir það erum við afskaplega þakklát. Öflugur stuðningur fyrirtækja og almennings gerir sjálfboðaliðum okkar kleift að vera til taks um allt land, allan sólarhringinn þegar vá stendur fyrir dyrum,“ segir Kristján Þór Harðarson, framkvæmdastjóri Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Afslátturinn gildir á öllum afgreiðslustöðvum Olís og ÓB á miðvikudag, nema þar sem lægsta verð ÓB er nú þegar.