Fimm íslenskar gönguleiðir eru á lista þeirra 20 vinsælustu, samkvæmt nýrri en óvísindalegri greiningu fyrirtækisins OnBuy, sem sérhæfir sig í vörum tengdum göngu. Fyrirtækið taldi hversu oft gönguleiðir heimsins voru merktar með myllumerki á samfélagssíðunni Instagram.

Greiningin var gerð í tilefni af Jarðardeginum, sem haldinn var í gær.

Af íslensku leiðunum er Skógafoss efstur með nærri 281 þúsund merkingar og í fimmta sæti listans. Í sjötta sæti er annar íslenskur foss, Gullfoss, með tæplega 275 þúsund merkingar. Sá þriðji, Seljalandsfoss, er í níunda sæti með 184 þúsund.

Í sextánda sæti kemur svo Laugavegurinn með 81 þúsund merkingar og í átjánda er leiðin frá Arnarstapa að Hellnum með 74 þúsund.

Langefst á listanum er leiðin frá Vernazza til Monterosso í norðvesturhluta Ítalíu, með 2,5 milljónir merkinga. Auk ítalskra og íslenskra leiða voru margar gönguleiðir í Bretlandi ofarlega á listanum.