Alls eru nú fimm sendifulltrúar Rauða kross Íslands tilbúnir til að fara til Haítí til að sinna neyðarstarfi í kjölfar jarðskjálfa sem varð þar um helgina að stærð 7,2. Allt eru það heilbrigðisstarfsfólk eins og til dæmis hjúkrunarfræðingar. Einhver þeirra hafa sinnt slíkum verkefnum áður, en ekki öll.
Atli Viðar Thorstensen á hjálpar- og mannúðarsviði Rauða kross Íslands segir það ekki vitað hversu fljótt þau verði kölluð út ef þörf er á. Það geti verið með eins dags fyrirvara eða tveggja vikna fyrirvara. Það fari eftir því hvort það sé þörf á vaktir strax eða í næstu vaktaumferð [e. Rotation].
„Það vantar ákveðið mikið af fólki og þau lönd sem eru í virku hjálparstarfi þau senda inn tillögur, eða umsóknir, og svo er valið teymi í Genf og það sent á staðinn. Þetta eru yfirleitt fjögurra vikna verkefni því vinnutarnirnar eru langar og það er mjög mikið að gera. Þess vegna er skipt ört út, svo fólk verði ekki of þreytt. Allavega til að byrja með en svo þegar líður á þá fara verkefnin að vara lengur og þá er yfirleitt skipulagið orðið betra og aðgengið,“ segir Atli Viðar.

Uggandi yfir hitabeltisstorminum
Alþjóða Rauði krossinn óskaði eftir fjölda starfsfólks til starfa eftir jarðskjálftann um helgina. Látin eru 1.419 og 6.900 eru særð. Tugþúsundir hafa misst heimili sín og enn er ekki á hreinu hversu margra er saknað. Eftir helgi er von á hitabeltisstormi á sama svæði og er spá sérfræðinga að allt að 25 sentímetrum af úrkomu sem gæti leitt til aurskriða. Greint er frá því á vef breska ríkisútvarpsins.
„Skemmdirnar eru ekki metnar eins miklar og eftir skjálftann árið 2010 en ástandið í svona fátæku ríki með slæma innviði er ekki gott og fólk er uggandi yfir þessum hitabeltisstormi,“ segir Atli Viðar.
Hann segir helstu hætturnar eins og staðan er núna er að það verði skortur á hreinu vatni og almennri hreinlætisaðstöðu og að sjúkdómar, eins og kólera, berist með vatni.
„Við sjáum það oft við þessar aðstæður og því er allt kapp lagt á að auka hreinlæti og aðgengi að vatni,“ segir Atli Viðar.
Covid til staðar en truflar ekki mikið
Spurður hvaða áhrif Covid-19 hafi segir hann að á Haítí og á öðrum stöðum þar sem neyð ríkir, eins og til dæmis í Afganistan, sé veiran auðvitað til staðar en að hún trufli ekki mikið, því miður.
„Þetta er eitthvað sem þarf að haga í huga auðvitað, en bólusetningarhlutfallið sem dæmi í Afganistan er 0,5 prósent og ekki mikið hærra á Haítí.“
Hann segir að það hafi, hingað til í faraldri, ekki verið vandamál fyrir fólk að ferðast til neyðarstarfa. Fólk þurfi að vera bólusett en ef það smitast þá er aðstaða á staðnum fyrir það til að vera á á meðan.