Alls eru nú fimm sendi­full­trúar Rauða kross Ís­lands til­búnir til að fara til Haítí til að sinna neyðar­starfi í kjöl­far jarð­skjálfa sem varð þar um helgina að stærð 7,2. Allt eru það heil­brigðis­starfs­fólk eins og til dæmis hjúkrunar­fræðingar. Ein­hver þeirra hafa sinnt slíkum verk­efnum áður, en ekki öll.

Atli Viðar Thor­sten­sen á hjálpar- og mann­úðar­sviði Rauða kross Ís­lands segir það ekki vitað hversu fljótt þau verði kölluð út ef þörf er á. Það geti verið með eins dags fyrir­vara eða tveggja vikna fyrir­vara. Það fari eftir því hvort það sé þörf á vaktir strax eða í næstu vakta­um­ferð [e. Rota­tion].

„Það vantar á­kveðið mikið af fólki og þau lönd sem eru í virku hjálpar­starfi þau senda inn til­lögur, eða um­sóknir, og svo er valið teymi í Genf og það sent á staðinn. Þetta eru yfir­leitt fjögurra vikna verk­efni því vinnu­tarnirnar eru langar og það er mjög mikið að gera. Þess vegna er skipt ört út, svo fólk verði ekki of þreytt. Alla­vega til að byrja með en svo þegar líður á þá fara verk­efnin að vara lengur og þá er yfir­leitt skipu­lagið orðið betra og að­gengið,“ segir Atli Viðar.

Eyðileggingin er mikil í bænum Los Cayos.
Fréttablaðið/EPA

Uggandi yfir hitabeltisstorminum

Al­þjóða Rauði krossinn óskaði eftir fjölda starfs­fólks til starfa eftir jarð­skjálftann um helgina. Látin eru 1.419 og 6.900 eru særð. Tug­þúsundir hafa misst heimili sín og enn er ekki á hreinu hversu margra er saknað. Eftir helgi er von á hita­beltis­stormi á sama svæði og er spá sér­fræðinga að allt að 25 sentí­metrum af úr­komu sem gæti leitt til aur­skriða. Greint er frá því á vef breska ríkisútvarpsins.

„Skemmdirnar eru ekki metnar eins miklar og eftir skjálftann árið 2010 en á­standið í svona fá­tæku ríki með slæma inn­viði er ekki gott og fólk er uggandi yfir þessum hita­beltis­stormi,“ segir Atli Viðar.

Hann segir helstu hætturnar eins og staðan er núna er að það verði skortur á hreinu vatni og al­mennri hrein­lætis­að­stöðu og að sjúk­dómar, eins og kólera, berist með vatni.

„Við sjáum það oft við þessar að­stæður og því er allt kapp lagt á að auka hrein­læti og að­gengi að vatni,“ segir Atli Viðar.

Covid til staðar en truflar ekki mikið

Spurður hvaða á­hrif Co­vid-19 hafi segir hann að á Haítí og á öðrum stöðum þar sem neyð ríkir, eins og til dæmis í Afgan­istan, sé veiran auð­vitað til staðar en að hún trufli ekki mikið, því miður.

„Þetta er eitt­hvað sem þarf að haga í huga auð­vitað, en bólu­setningar­hlut­fallið sem dæmi í Afgan­istan er 0,5 prósent og ekki mikið hærra á Haítí.“

Hann segir að það hafi, hingað til í far­aldri, ekki verið vanda­mál fyrir fólk að ferðast til neyðar­starfa. Fólk þurfi að vera bólu­sett en ef það smitast þá er að­staða á staðnum fyrir það til að vera á á meðan.