Fimm eru nú inniliggjandi á Landspítala með COVID-19 og hefur einn bæst við frá því í gær. Einn sjúklinganna er á gjörgæslu og eru hinir innlögðu á þrítugs til sjötugsaldri.

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag en þar kom fram í máli Ölmu Möller landlæknis að róðurinn væri byrjaður að þyngjast innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.

Þá sagði hún að staðan væri orðin áhyggjuefni nú þegar líða fer á þriðju bylgju faraldursins en mikill fjöldi nýrra smita hafa greinst innanlands undanfarnar tvær vikur.

Greint var frá því á miðvikudag að stjórnendur Landspítalans væru farnir að búa sig undir að innlögnum vegna COVID-19 tæki að fjölga í ljósi þróunarinnar.

Þá sagði Bryndís Sigurðardóttir, smitsjúkdómalæknir á Landspítala, í samtali við RÚV að í fyrstu bylgju faraldursins hafi þeir sjúklingar sem hafi veikst illa af sjúkdómnum hafi byrjað að veikjast alvarlega á 9. til 13. degi sýkingar.