Fimm greindust með COVID-19 innanlands í gær, allir nema einn var í sóttkví við greiningu. Allir greindust í einkennasýnatöku.

Þá greindust sjö farþegar á landamærunum í gær. Tvö smitanna eru virk en hin bíða niðurstöðu úr mótefnamælingu.

Alls voru tekin 846 sýni innanlands og 712 á landamærum, mun fleiri en í gær þegar aðeins um 400 sýni voru tekin á landamærum.

Alls eru 19 inniliggjandi á spítala. Einn sjúklingur er með virkt Covid-19 smit og 18 sem hafa lokið einangrun en enginn er í öndunarvél.

Þá eru 160 nú í einangrun og með virkt smit og fækkar um níu á milli daga. 229 eru í sóttkví.

Nýgengni innanlandssmita, sem er fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 18,5. Nýgengni landamærasmita er 29,5 og heldur áfram að hækka á milli daga. Smitum á landamærum hefur fjölgað talsvert undanfarnar vikur en Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að alls hefðu 37 einstaklingar greinst með breska afbrigði veirunnar hér á landi og þar af 33 á landamærunum.