Fimm manns greindust með kórónaveiruna sem veldur COVID-19 innanlands í gær en allir þeir sem greindust voru í sóttkví við greiningu. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum sem almannavarnir sendu út fyrir skemmstu.

Þetta er þriðji dagurinn í röð þar sem allir sem greinast eru í sóttkví en á föstudag greindust tveir einstaklingar með veiruna. Bæði smitin komu upp á Skagafirði þar sem hópsýking kom upp um síðustu helgi.

Á landamærunum greindust tvö smit en engin smit greindust þar á föstudag. Ekki liggur fyrir hvort einstaklingarnir sem greindust á landamærunum í gær hafi verið með mótefni.

Líkt og áður segir er um að ræða bráðabirgðatölur en vefurinn covid.is er ekki uppfærður um helgar. Hægt verður að nálgast upplýsingar um fjölda einstaklinga í sóttkví og einangrun, fjölda sýna, og svo framvegis á morgun.