Alls hafa 495 lagafrumvörp verið samþykkt á þessu kjörtímabili. Þar af eru 419 stjórnarfrumvörp, 51 frá nefndum þingsins og 25 frá þingmönnum, svokölluð þingmannamál. Tæplega 60 mál tengdust faraldrinum sérstaklega.

Athygli vekur að langflest samþykkt þingmannafrumvörp á kjörtímabilinu komu frá þingmönnum stjórnarmeirihlutans, eða samtals nítján frumvörp. Tíu þeirra frá þingmönnum Vinstri grænna. Þar ber hæst ný kosningalöggjöf Steingríms J. Sigfússonar. Þá var Katrín Jakobsdóttir fyrsti flutningsmaður frumvarps frá formönnum flokkanna um breytingar á lögum um fjármál stjórnmálaflokka.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk sjö frumvörp samþykkt. Tvö þeirra frá Vilhjálmi Árnasyni um annars vegar ættleiðingar og hins vegar um rétt barna til ráðgjafar vegna alvarlegra veikinda foreldris. Silja Dögg Gunnarsdóttir var eini þingmaður Framsóknarflokksins sem náði þingmannafrumvarpi gegnum þingið og ekki aðeins einu heldur tveimur; annars vegar um ætlað samþykki til líffæragjafar og hins vegar um sérstakan barnalífeyri.

Viðreisn fékk þrjú frumvörp samþykkt, þar á meðal breytingar á nauðgunarákvæði almennra hegningarlaga og bætt aðgengi að sálfræðiþjónustu. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fékk samþykktar lagabreytingar um leiðsöguhunda og Helga Vala Helgadóttir náði fram einni lagabreytingu af hálfu Samfylkingarinnar, um jafnan rétt foreldra til að höfða faðernismál. Píratar fengu eitt frumvarp samþykkt, mál Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur um tollfrelsi tíðavara og getnaðarvarna.

Þingmenn Miðflokksins fengu ekkert frumvarp samþykkt á kjörtímabilinu en áttu hins vegar ræðukóng þess, Birgi Þórarinsson, sem talaði lengst allra þingmanna. Miðflokksmenn eiga líka heiðurinn af lengstu umræðu kjörtímabilsins. Hún var um þriðja orkupakkann og tók 147 klukkustundir.

Á kjörtímabilinu svöruðu ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forseti þingsins 1.524 fyrirspurnum frá þingmönnum. Fyrirspurnir sem uppi döguðu milli þinga eða var ekki svarað voru alls 136. Alls var 69 fyrirspurnum nýliðins þingvetrar enn ósvarað þegar þingi var frestað um helgina.

Samkvæmt þingskapalögum skal miða við að ráðherra hafi tvær vikur til að svara fyrirspurnum, þessi viðmiðunartími er þó alls ekki alltaf virtur. Ein elsta ósvaraða fyrirspurnin frá nýloknu þingi er frá Þorsteini Sæmundssyni um ofanflóðasjóð. Hún var lögð fram 4. febrúar, eða fyrir rúmum fjórum mánuðum.

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, segir starfslið þingsins alls ekki komið í frí þótt fundum þess hafi verið frestað.

„Hér er starfsemi allt árið nema kannski yfir helsta sumarleyfistímann,“ segir Ragna. Aðspurð segir hún aðstæðurnar verið krefjandi þetta kjörtímabil vegna faraldursins. „Ég þekki þingið eiginlega betur í sóttvarnaástandi heldur en hitt, var búin að vera í hálft ár þegar faraldurinn reið yfir,“ segir Ragna sem hóf störf í þinginu haustið 2019. Hún hlakkar til að kynnast þinginu í venjulegu árferði en faraldurinn hafi þó kennt starfsliði þingsins margt og sumt af nýju verklagi verði ekki snúið til baka með.

„Þingið hefur eflst mikið síðan ég vann þar á síðustu öld, en alveg merkilega margir hlutir sem ekki hafa breyst, og mega þó sumir hlutir alveg breytast,“ segir Ragna, sem starfaði á nefndasviði þingsins um árabil. Stofnunin sé eðlilega íhaldssöm en þar leynist þó líka jarðvegur fyrir ýmsar umbætur. Nýbygging Alþingis verður tekin í notkun árið 2023 og í því felast einnig tækifæri til umbóta segir Ragna. Þar verði „hægt að nýta tækni og rými til fulls samkvæmt þörfum þingsins.“