Stjórnvöld í Íran hafa handtekið fimm manns sem eru sakaðir um njósnir fyrir erlend ríki. Reuters fréttastofan greinir frá því að minnst tveir einstaklinganna hafi þegar verið dæmdir í fangelsi.

Talsmaður íranskra stjórnvalda sagði á blaðamannafundi að einn hinna fimm, Shahram Shirkhani, hefði verið dæmdur í fangelsi vegna njósna fyrir Bretland. Hann hafi reynt að fá íranska embættismenn til að ganga til liðs við bresku leyniþjónustuna MI6.

Þá var Masoud Mosaheb, varaformaður Vináttufélags Írans og Austurríkis dæmdur í tíu ára fangelsi. Hann var sakfelldur fyrir að hafa deilt upplýsingum um eldflauga- og kjarnorkuáætlanir Írans með leyniþjónustum Ísraels og Þýskalands.

Í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Austurríkis segir að unnið verði að því að fá Mosaheb, sem er bæði með ríkisfang í Íran og í Austurríki, látinn lausan. Íran viðurkennir hins vegar ekki tvöfalt ríkisfang.

Á blaðamannafundinum voru ekki gefnar upplýsingar um hina þrjá einstaklingana. Þó kom fram að handtökurnar hefðu verið gerðar í utanríkis-, varnarmála- og orkumálaráðuneytum landsins auk Kjarnorkustofnunarinnar.