Fimm einstaklingar greindust með COVID-19 innanlands í gær en allir sem greindust voru utan sóttkvíar við greiningu. Að því er kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum voru þrír þeirra fullbólusettir en hinir tveir ekki bólusettir að fullu.

Samkvæmt tilkynningunni er ljóst að á annað hundrað manns þurfi að fara í sóttkví vegna smitanna en smitrakning stendur nú yfir. Smitin sem hafa komið upp síðustu daga hafa tengingar við skemmtanalífið, stóra fjölskyldu- og vinaviðburði.

„Það er ljóst að það er samfélagslegt smit á landinu og því er gríðarlega mikilvægt að allir fari varlega á næstu dögum og vikum, líka þeir sem eru bólusettir því augljóst er að þeir aðilar geta áfram smitast af COVID-19,“ segir í tilkynningunni.

Óljós uppruni smita

Tveir einstaklingar greindust með veiruna utan sóttkvíar á mánudag en þeir voru báðir bólusettir. Ekki var um alvarleg veikindi að ræða að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis en einstaklingarnir voru þó með einkenni.

Annar þeirra sem greindist hafði verið á skemmtistaðnum Bankastræti Club um helgina, bæði á föstudag og laugardag, og því ekki óviðbúið að fleiri skyldu greinast. Ekki var búið að rekja uppruna smitsins í gær og því ekki ljóst hvar einstaklingarnir smituðust.

247 þúsund fullbólusettir

Þórólfur greindi frá því í samtali við Fréttablaðið í gær að næstu dagar myndu segja til um hvort útbreidd bólusetning Íslendinga myndi gera það að verkum að hægt væri að halda faraldrinum í skefjum. Áfram megi þó búast við að bólusettir geti smitast þar sem bólusetning veitir ekki fullkomna vernd gegn veirunni.

Eins og staðan er í dag hafa tæplega 267 þúsund einstaklingar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni, þar af eru tæplega 247 þúsund fullbólusettir. Samkvæmt upplýsingum á covid.is eru rúmlega 295 þúsund einstaklingar 16 ára og eldri hér á landi en aðeins er bólusett niður að 16 ára að svo stöddu.