Dómstóll í Sádí Arabíu hefur nú dæmt fimm manns til dauða, og þrjá aðra í 24 ára fangelsi, fyrir morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi í fyrra en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Khashoggi hafði verið mjög gagnrýninn á stjórnvöld í landinu og var á tímabili talið að konungur og krónprins landsins hafi átt hlut í málinu.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í fyrra sást síðast til hins 59 ára gamla Khashoggi þegar hann gekk inn á ræðismannaskrifstofu Sádi-Araba í Istanbúl í Tyrklandi þann 2. október 2018. Saksóknari í Sádí Arabíu sagði í nóvember á síðasta ári að morðið hafi verið skipulagt af Sádi-Arabísku teymi en Khashoggi lést af völdum lyfja sem hann var sprautaður með auk þess sem hann var kyrktur. Þá var lík hans bútað niður í kjölfarið.

Agnes Callamard, framsögumaður nefndar sem sá um skýrslu Sameinuðu þjóðanna um málið, sagði ljóst að Khashoggi hafi verið myrtur þann dag sem hann gekk inn á ræðismannaskrifstofuna eftir að nefndin fékk að heyra hljóðupptökur frá skrifstofunni. Þá var það ekki útilokað að konungsveldi Sádí-Araba hafi verið kunnugt um morðið.