Að minnsta kosti fimm bandarískar herflutningavélar lentu á Keflavíkurflugvelli í dag. Af þeim voru þrjár af gerðinni MV-22 Osprey sem eru herflugvélar með þyrluspaða. Hinar tvær eru af gerðinni C-130 Hercu­les og Lockheed C-5 Galaxy. Mbl greindi fyrst frá.

Talið er að vélarnar tengist komu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, til landsins. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Pence munu funda í húsi Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli á miðvikudagskvöldið næstkomandi rétt eftir að Katrín snýr aftur til landsins frá fundum í Svíþjóð og Danmörku.

Bandarísk sprengjuflugvél af gerðinni B-2 Spirit lenti á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku. Slíkar vélar voru upphaflega hannaðar til að fljúga með kjarnorkuvopn og eiga ekki að sjást á ratsjám.

Koma Pence til landsins hefur vakið miklu fjaðrafoki hér á landi og hafa Samtök hernaðarandstæðinga og Samtökin '78 boðað til mótmæla.

Pence hyggst ræða við Katrínu um mikil­­vægi land­­fræði­­legrar legu Ís­lands á norðu­heim­­skauts­­svæðinu, sem og starf­­semi NATO vegna aukinna umsvifa Rúss­lands í heims­hlutanum.

Bandaríkjaher og Atlantshafsbandalagið (NATO) áætla að verja samtals um fjórtán milljörðum króna til uppbyggingar og viðhalds á varnarmannvirkjum hér á landi á næstu árum. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að áform Bandaríkjahers um uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli feli ekki í sér að endurvekja gömlu herstöðina.

C 130 Herkúles herflugvél á Keflavíkurflugvelli
Fréttablaðið/ Teitur Jónasson