Saga Sól­rún, fimm ára stúlka, sendi Dag B. Eggerts­syni, borgar­stjóra, opið bréf þar sem hún biður hann um að bjarga bóka­bílnum Höfðingja, en í vikunni var greint frá því að starf­semi bóka­bílsins verði lögð niður.

„Kæri Borgar­stjóri. Ég heiti Saga Sól­rún og ég ætla að biðja þig um að hætta þessu bulli!! Bóka­bíllinn má ekki hætta!“ skrifar hún í bréfinu, en móðir hennar, Aðal­björg Árna­dóttir, birtir bréfið á Face­book-síðu sinni.

„Ég nota hann mjög mikið, ég get ekki labbað á önnur bóka­söfn, ég þarf að fara í bíl og það er mjög leiðin­legt. En í bóka­bílinn labba ég. Mamma, pabbi, amma og afi og vinir mínir eru sam­mála mér,“ segir Saga Sól­rún í bréfinu.

„Viltu laga þetta plís borgar­stjóri. Ég elska bóka­bílinn svo mikið. Bestu kveðjur, hættu þessu bulli, litli sæti borgar­stjóri, takk fyrir.“

Greint var frá því í Morgun­blaðinu í vikunni að Borgar­bóka­safnið leggi til að starf­semi bóka­bílsins verði lögð niður í drögum að nýrri fjár­hags­á­ætlun.

Bókabíllinn er orðinn 22 ára gamall og sam­kvæmt bóka­verði safnsins myndi kosta um 100 milljónir að endur­nýja hann.