Saga Sólrún, fimm ára stúlka, sendi Dag B. Eggertssyni, borgarstjóra, opið bréf þar sem hún biður hann um að bjarga bókabílnum Höfðingja, en í vikunni var greint frá því að starfsemi bókabílsins verði lögð niður.
„Kæri Borgarstjóri. Ég heiti Saga Sólrún og ég ætla að biðja þig um að hætta þessu bulli!! Bókabíllinn má ekki hætta!“ skrifar hún í bréfinu, en móðir hennar, Aðalbjörg Árnadóttir, birtir bréfið á Facebook-síðu sinni.
„Ég nota hann mjög mikið, ég get ekki labbað á önnur bókasöfn, ég þarf að fara í bíl og það er mjög leiðinlegt. En í bókabílinn labba ég. Mamma, pabbi, amma og afi og vinir mínir eru sammála mér,“ segir Saga Sólrún í bréfinu.
„Viltu laga þetta plís borgarstjóri. Ég elska bókabílinn svo mikið. Bestu kveðjur, hættu þessu bulli, litli sæti borgarstjóri, takk fyrir.“
Greint var frá því í Morgunblaðinu í vikunni að Borgarbókasafnið leggi til að starfsemi bókabílsins verði lögð niður í drögum að nýrri fjárhagsáætlun.
Bókabíllinn er orðinn 22 ára gamall og samkvæmt bókaverði safnsins myndi kosta um 100 milljónir að endurnýja hann.