Karlmaður hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir fyrir ítrekaðar nauðganir og brot í nánu sambandi gegn barnsmóður sinni. Um er að ræða margítrekað ofbeldi sem átti sér stað á einum degi í september í fyrra.

Í dóminum sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra á Akureyri í síðustu viku, er lýst langvarandi ofbeldi sem konan hefur þurft að þola af hendi mannsins en þau hafa átt í sambandi með hléum frá því konan var átján ára en hann 27 ára. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir margháttuð brot gegn konunni á árunum 2015 til 2018.

Var með hana í hálstaki þar til hún missti meðvitund

Árásin sem hann var dæmdur fyrir nú átti sér stað á einum degi í september í fyrra. Fá fordæmi eru fyrir svo löngum fangelsisdómi fyrir nauðgun en um sérlega hrottalega atlögu var að ræða samkvæmt lýsingu í ákæru. Þar var manninum gefið að sök að hafa „þvingað brotaþola ítrekað yfir daginn til samræðis, endaþarmsmaka og munnmaka með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, tekið hana hálstaki í tvígang og þrengt að öndunarvegi hennar svo að hún missti meðvitund, rifið í hár hennar og klipið hana, og ekki hætt þótt brotaþoli grátbæði hann um það,“ eins og þar segir.

Var ákærði sakfelldur fyrir þetta ofbeldi gegn brotaþola en meðal áverka á konunni var mar á aftanverðum hægri framhandlegg, aftanverðu hægra læri, vinstra viðbeini og framanverðum vinstri sköflungi, marblettir hægra megin á hálsi, eymsli í hársverði, herðum, brjóstkassa og hryggjarsúlu niður á rófubein og mar og húðrifur í og við endaþarm.

„Allt með hennar samþykki“

Við aðalmeðferð málsins dró ákærði ekki í efa að brotaþoli hefði hlotið umrædda áverka við samræði þeirra á milli en neitaði því að hafa þvingað hana. Þetta hafi allt verið með hennar samþykki. Hann lýsti því að þau væru vön að stunda harkalegt kynlíf þannig að það sæi á þeim á eftir. Hann nefndi þó ekki harkalegt kynlíf í fyrstu skýrslutökum. Það var ekki fyrr en áverkar á konunni voru bornir undir hann sem hann vísaði til meints áhuga þeirra á harkalegu kynlífi. Hann gat þó ekki nefnt alvarlegri áverka en klórför sem hann hefði sjálfur fengið eftir kynlíf.

„Þú veist, ég var ekkert að taka eitthvað sérstaklega eftir því en hún var aldrei að segja mér að hætta á neinn einasta hátt.“

Um meint samþykki brotaþola gat ákærði ekki svarað skýrt að mati dómsins en sagði meðal annars: „Þú veist, ég var ekkert að taka eitthvað sérstaklega eftir því en hún var aldrei að segja mér að hætta á neinn einasta hátt.“

Þetta er ekki í samræmi við framburð brotaþola sem kvaðst margsinnis hafa beðið ákærða að hætta, hágrátið og jafnvel öskrað af sársauka. Þau hafi áður stundað gróft kynlíf en það væri ólíkt þessu.

Vikið er að skýrslu kvensjúkdómalæknis og hjúkrunarfræðings um réttarlæknisfræðilega skoðun í dóminum og þar segir að „brotaþoli hafi verið þreytuleg og fjarræn en frásögn hennar hafi verið skýr. Hún hafi átt erfitt með að tímasetja það sem gerðist nema upphaf og endi. Hún hafi hniprað sig saman, verið kalt, liðið illa, með svima og ógleði. Hún hafi verið hrædd og fundist minningin renna saman í endalaust ofbeldi. Hún hafi átt erfitt með að sitja vegna óþæginda, verkja og eymsla í grindarbotni, kynfærum og endaþarmi.“

Hún var átján en hann níu árum eldri

Í skýrslu sálfræðings kom fram að brotaþoli var 18 ára þegar hún byrjaði í sambandi við ákærða, sem var þá 27 ára. Hún er greind á mörkum tornæmis, með einkenni einhverfu og blandaða kvíðaröskun. Sálfræðingur sem hefur haft brotaþola til meðferðar lýsti langri sögu ofbeldissambands þar sem ákærði hafi algjöra stjórn á brotaþola og beiti hana ýmisskonar ofbeldi. Hún hafi hafi viljað komast úr sambandinu en ekki getað það, ákærði hafi alltaf náð til hennar aftur og hún geti ekki sett honum mörk.

Maðurinn var fyrst dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir margítrekuð brot gegn konunni á tímabilinu 2015 til 2018. Brotaþoli hafi engu að síður hafið samband með honum að nýju og af því megi ráða hve lítils brotaþoli megi sín gagnvart honum líkamlega og andlega. Hún sé dauðhrædd við hann.

Hún hafi hniprað sig saman, verið kalt, liðið illa, með svima og ógleði. Hún hafi verið hrædd og fundist minningin renna saman í endalaust ofbeldi

Átti erfitt með skýrslugjöf fyrir dómi

Í dóminum kemur fram að konan hafi átt erfitt með að skýra frá atvikum fyrir dómi og hafi verið í uppnámi við skýrslugjöf. Hún hafi hins vegar skýrt vinkonu sinni frá atvikum strax eftir að þau urðu, og hjúkrunarfræðingi og lækni á bráðamóttöku um kvöldið. Hún hafi gefið skýrslu hjá lögreglu daginn eftir. Þá hafi hún einnig skýrt meðferðaraðilum frá. Að mati dómsins hefur frásögn hennar í öllum meginatriðum verið á sama veg frá upphafi þótt frásagnir hennar hafi verið misítarlegar. Þrátt fyrir erfiðleika hennar við skýrslu fyrir dómi telur dómurinn framburð hennar trúverðugan og það ekki talið draga úr trúverðugleika hennar að hún hafi ekki getað skýrt frá öllu í tímatörð eða gert grein fyrir hverri stund sem hún var hjá ákærða „enda vart við því að búast í slíkum aðstæðum, auk þess sem hún missti meðvitund í tvígang,“ segir í dóminum.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Norðurlands eystra í síðustu viku.
Fréttablaðið/Anton Brink.

Dómurinn vísar til framburðar brotaþola, mikilla líkamlegra áverka hennar, andlegs ástands hennar við komu á neyðarmóttöku og staðfestingar meðferðaraðila á mjög versnandi andlegu ástandi hennar í kjölfar þessara atvika, er það álit dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi þvingað brotaþola til að þola það ofbeldi sem lýst er í ákæru.“

Refsingin þyngri en gengur og gerist

Um refsiákvörðun segir meðal annars í dóminum að árás ákærða á brotaþola hafi staðið yfir lengi og brotaþoli hlotið umtalsverða áverka. Hún sé illa haldin af áfallastreitu og ótta. Þá hafi nauðgunin verið sérlega gróf og niðurlægjandi og ber að virða það til refsiþyngingar. Þess er einnig getið við refsiákvörðun að brotaþoli er barnsmóðir ákærða og þau hafi verið í slitróttu sambandi í nokkur ár. Var ákærði því dæmdur í 5 ára fangelsi en afar fátítt er að refsing fyrir nauðgun sé svo þung.

Hann var einnig dæmdur til að greiða brotaþola fjórar milljónir í miskabætur auk sakarkostnaðar.

Arnbjörg Sigurðardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.