Héraðssaksóknari hefur gefið út fimm ákærur gegn systkinunum sem kennd eru við Sjólaskip að því er fram kemur á fréttavef RÚV. Um er að ræða meint brot systkin­anna gegn ákvæðum skatta­laga og verða málin þingfest í lok ágúst.

Sjólaskip var útgerð í Hafnarfirði sem Jón Guðmundsson stofnaði árið 1963 og erfðu þau Haraldur, Guðmundur, Berglind og Ragnheiður Jónsbörn útgerðina. Embætti skattrannsóknarstjóra kærði viðskipti systkinanna í skattaskjólinu Tortólu til héraðssaksóknara en þau seldu útgerðarfyrirtækinu Samherja útgerð sína í Afríku fyrir tólf milljarða króna um vorið 2007. Útgerðin veiddi úti fyrir strönd Afríku frá árinu 1997 og unnu um þúsund manns hjá útgerðinni

Fréttatíminn, í samstarfi við Reykjavik Media, greindi frá því að nöfn systkinanna væru í Panamaskjölunum og að afrit af vegabréfum systkinanna var til að finna í gögnunum sem var lekið.

Árið 2014 keyptu systkinin Berglind og Guðmundur Jónsbörn skemmtigarðinum í Smáralind en þau áttu fyrir 49 prósenta hlut í garðinum í gegnum þrjú einkahlutafélög. Skemmtigarðurinn hætti rekstri síðastliðinn febrúar.