Lögreglumenn sem handtekið höfðu 36 ára gamlan þeldökkan mann fyrir vopnaburð í sumar hafa verið ákærðir fyrir að bera ábyrgð á maðurinn lamaðist frá bringu og niður í ökuferð í lögreglubíl.
Fram kemur á fréttavef CBS sjónvarpsstöðvarinnar að hinn 36 ára gamli Randy Cox hafi kastast með höfuðið á undan sér og lent utan í vegg bílsins er ökumaðurinn hemlaði skyndilega til að forða árekstri að því er virðist. Atburðurinn varð í New Haven í Connecticut.
Atvikið náðist á myndband og það sýnir lögreglumennina hæðast að Cox þar sem hann segist ekki geta hreyft sig og biður um hjálp. Sökuðu þeir hann um að vera drukkinn og vera með uppgerð. Síðan var Cox dreginn á fótunum úr lögreglubílnum og settur í fangaklefa þar sem hann átti að bíða þar til hann kynni að vera senda á sjúkrahús að því er segir í frétt CBS.
„Mér verður óglatt af því að farið sé með einhvern á þennan hátt,“ sagði Latoya Boomer, systir Cox við CB.
Lögreglumennirnir fimm eru ákærðir fyrir skeytingarleysi og grimmd í meðferð sinni á Cox. Þeir hafa allir verið í leyfi frá störfum frá því í sumar.
„Þú getur gert mistök en þú mátt ekki fara illa með fólk, punktur. Það getur ekki farið með fólk eins og farið var með herra Cox,“ sagði Karl Jacobson lögreglustjóri sem kvað mikilvægt yfir lögregluna að störf hennar væru ábyrg og gegnsæ.
Lögreglumennirnir fimm greiddu hver um sig 25 þúsund dala tryggingu í gær og eiga að mæta í dómsal 8. desember næstkomandi, vitnar CBS í tilkynningu frá lögreglunni.
Atvikið hefur valdið ofsareiði hjá þeim sem láta sig mannréttindi skipta. Máli Cox er líkt við mál annars þeldökks manns, Freddie Gray, sem skaddaðist á mænu og lést eftir illa meðferð í lögreglubíl á árinu 2015.
Í aðdraganda hinnar afdrifaríku ferðar í lögreglubílnum hafði Cox verið handtekinn fyrir að bera skammbyssu. Það mál var síðan fellt niður.
Lögmaður Cox fjölskyldunnar segir afar mikilvægt að lögreglumennirnir séu dregnir til ábyrgðar að fullu eins og lög leyfi. Fjölskyldan stefnir fyrir sitt leyti New haven borg og lögreglumönnunum fimm yfir vanrækslu, hraðakstur og fyrir að hafa ekki haft nothæf bílbelti í lögreglubílnum.