Eins og fram kom í Fréttablaðinu á þriðjudag hættir B.T., systurblað Berlingske Tidende, að koma út í prentuðu formi um áramót og flytur sig vefinn, verður að fullu rafrænt.

Þessi þróun, að dagblöð flytji sig á vefinn, hófst upp úr aldamótum og hefur mjög aukist á allra síðustu árum. Það er víðar en í Danmörku að lestur blaða færist á vefinn.

Forvitnilegt er að glugga í nýlegt uppgjör News Corporation sem er móðurfyrirtæki dagblaðsins The Wall Street Journal.

Á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru áskrifendur að The Wall Street Journal alls 3,75 milljónir. Einungis 650 þúsund þeirra voru áskrifendur að blaðinu og hafði þeim fækkað um 80 þúsund milli ára. Áskriftir að rafrænu formi blaðsins voru hins vegar 3,1 milljón og hafði fjölgað um ríflega 300 þúsund milli ára. Rafrænar áskriftir nema þannig um 83 prósentum allra áskrifta

Auglýsingatekjur blaðsins jukust um 13 prósent milli ára, rafrænar auglýsingar um 16 prósent og prentaðar auglýsingar um 9 prósent. Tekjur vegna rafrænna auglýsinga nema nú 58 prósentum allra auglýsingatekna og hækkaði hlutfallið um tvö prósentustig milli ára.

Mikill kostnaður er samhliða því að prenta dagblöð og dreifa til áskrifenda og á einhverjum tímapunkti kemur að því að ekki svarar lengur kostnaði að gefa út prentuð dagblöð fyrir ört minnkandi hóp hefðbundinna áskrifenda.