Keppni á vegum Fimleikasambands Íslands verður nú framvegis óháð kyni fram að fjórtánda aldursári. Tillaga þess efnis var samþykkt á Fimleikaþingi sem haldið var 23. apríl síðastliðinn sem gera kynsegin einstaklingum kleift að keppa í þeim flokki og grein sem þeir samsama sig með.

Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasamband Íslands, segir samþykktina taka í gildi strax á næsta keppnistímabili sem hefst í lok ágúst næstkomandi. Hún segir mikla samstöðu hafa verið innan sambandsins um tillöguna.

Eðlilegt skref

Kristinn Arason, formaður stjórnar Fimleikasambands Íslands, segir dæmi um það að krakkar hafi keppt eftir sinni upplifun hingað til en að það hafi verið háð undanþágu í hvert skipti. „Okkur fannst óþarfi að það þyrfti að sækja um undanþágu. Reglurnar eru núna mjög einfaldar og það á enginn að þurfa upplifa sig sem eitthvað öðruvísi,“ segir Kristinn. Hann segir sambandið hafa lagt fram tillögu fyrir þremur árum á Íþróttaþingi til að reyna koma umræðunni af stað. Síðan þá hafi samfélagið vaxið mikið og sambandið ákveðið að taka afgerandi lausn til framtíðar.

Sólveig segir sambandið hafa viljað vera til staðar fyrir alla, með því að leyfa krökkum að keppa eins og þeim líði best. „Þetta er svo eðlilegt skref í nútíma samfélagi, auðvitað á þetta að vera svona.“

Alþjóðareglur taki við

Að sögn Sólveigar úrfærslan ekki flókin innan fimleikasambandsins enda eina sem skiptir máli að einstaklingar finni sinn farveg innan fimleikanna.

„Eftir fjórtánda aldursárið förum við að velja í úrvalshópa og unglingalandslið og þá í raun hætta okkar reglur að taka utan þetta og þá gilda alþjóðareglurnar. Þau eru ekki með sambærileg ákvæði í sínum reglum og þess vegna þarf að meta hvert tilfelli fyrir sig.“

Aðspurð hvort búið sé að útfæra samþykktina segir Sólveig svo ekki vera en að sú vinna sé hafin. „Núna erum við bara finna lausnir þannig að samþykktin virki en nægur tími er til stefnu þar sem fyrsta mótið er ekki fyrr en á haustmánuðum.“