Sjúklingur á fíknigeðdeild Landspítalans hefur greinst með COVID-19 og hefur deildinni verið lokað vegna þessa. Eru allir sjúklingar og stór hluti starfsmanna deildarinnar nú komnir í sóttkví.

Auk sjúklinganna er nú unnið að því að skima um 30 til 40 starfsmenn sem starfa ýmist á fíknigeðdeildinni eða á bráðamóttöku geðsviðs.

Þetta staðfestir Nanna Briem, forstöðumaður geðþjónustu Landspítalans, í samtali við Fréttablaðið.

Hún segir að starfsfólkið sé nú komið í vinnusóttkví B sem geri þeim kleift að starfa áfram á spítalanum undir sérstöku eftirliti á meðan það greinist ekki með veiruna.

Ekki í fyrsta sinn sem smit greinist á geðsviði

Nanna leggur áherslu á að tilfellið eigi ekki að hafa mikil áhrif á þjónustu geðsviðsins og að áfram verði hægt að taka á móti sjúklingum inn á aðrar deildir.

„Við vinnum okkur í gegnum þetta en auðvitað er þetta áskorun. Fíknigeðdeildin er lokuð á meðan en við tökum að sjálfsögðu áfram á móti þeim sem þurfa á innlögn að halda.“

Þá segir Nanna að geðsvið spítalans hafi reynslu af því að takast á við slíkar aðstæður eftir að kórónaveirusmit greindist á móttökugeðdeild í vor.

„Við teljum okkur ráða mjög vel við þetta og geta sinnt okkar hlutverki áfram.“

Fréttin hefur verið uppfærð.