Vagnbjörg Magnúsdóttir, fíknifræðingur og stofnandi Vörðunnar meðferðarstofu, segir það bitna á skjólstæðingum sínum og kollega sinna að fíknifræðingar fái ekki starfsleyfi frá Embætti landlæknis.

Samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur áfengis- og vímuefnaráðgjafa eru skilyrði fyrir starfsleyfi þau að umsækjandi hafi verið í fullu starfi eða í sex þúsund klukkustundir við áfengis- og vímuefnaráðgjöf á heilbrigðisstofnun. Þetta samsvarar þriggja ára starfi.

Þá skal umbjóðandi hafa fengið kennslu í 300 klukkustundir sem lúti meðal annars að lyfjafræði ávana- og vímuefna og siðfræði áfengismeðferðar. Hann skal hafa fengið leiðsögn frá þar til bærum heilbrigðisstarfsmanni í alls 225 klukkustundir, þar af 75 tíma í beinni handleiðslu.

Neitað um löggildingu starfsheitis

Nám í áfengis- og vímuefnaráðgjöf, sem fram fer á heilbrigðisstofnunum SÁÁ, felur í sér sömu kröfur og skilyrði og útlistuð eru í reglugerðinni samkvæmt upplýsingum á vefsíðu SÁÁ og segir Vagnbjörg ógerlegt fyrir aðra en þá sem fari í gegnum það nám að uppfylla skilyrðin.

„Þetta eru bara nákvæmlega sömu kröfur og þar sem við erum starfandi á einkastofum er ógerlegt fyrir okkur að fylla upp í þennan tímafjölda,“ segir Vagnbjörg og bendir á að fíkniráðgjafar hjá Vörðunni hafi meistaragráðu frá Hazelden Betty Ford Grad­uate School of Addiction Studies í Bandaríkjunum. Námið sé áfallamiðað, ólíkt námi áfengis- og vímuefnaráðgjafa hér. Þá hafi þær skilað inn nær þúsund vinnustundum í námi ásamt því að hafa verið í handleiðslu allan tímann.

Fagfélag fíknifræðinga hefur líka sótt um löggildingu starfsheitis sem heilbrigðisstétt til heilbrigðisráðuneytisins og fékk neitun í maí árið 2020. Í ákvörðun ráðuneytisins segir „að ekki verði séð að löggilding stéttarinnar sé nauðsynleg með tilliti til öryggis og hagsmuna sjúklings.“

Vagnbjörg segir að fyrir henni felist tvennt í því að ráðuneytið neiti beiðni félagsins um löggildingu starfsheitis sem heilbrigðisstéttar.

„Annars vegar þarf að vernda þennan hóp fyrir okkur, það er meðferðaraðilum sem þjónusta þau, og gefa þeim platform til þess að kvarta ef þau telja á sér brotið, við vitum hversu oft það hefur gerst,“ segir hún. Nú heyri fíknifræðingar ekki undir neinn.

„Hægt að hefja einkamál á hendur okkur ef við brjótum á skjólstæðingum“

„Það er í raun bara hægt að hefja einkamál á hendur okkur ef við brjótum á skjólstæðingum. Hins vegar eru örfáir sem greiða niður þjónustuna og Félagsþjónusta Reykjavíkurborgar, sem er með marga skjólstæðinga með fíknivanda, hefur hætt að greiða niður en hún gerði það á tímabili á einhvers konar undanþágu,“ segir Vagnbjörg.

„Niðurgreiðsla til skjólstæðinga er mikilvægasti þátturinn í því að við fáum starfsleyfi,“ segir Vagnbjörg. „Það að fólk hafi val um það hvert það leitar í ráðgjöf, við viljum ekki stíga á tær SÁÁ eða annarra heldur veita fólki þá ráðgjöf sem það þarf eftir að það hefur fengið læknishjálp ef það er það sem það þarf.“