Tveir karlmenn af spænskum uppruna, annar á fertugsaldri og hinn á sextugsaldri, hafa verið ákærðir fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og peningaþvætti.

Öðrum manninum, sem er fæddur 1990, er gefið að sök að hafa skipulagt og fjármagnað innflutning á samtals 867,05 g af kókaíni, sem hafði 37-41% styrkleika, hingað til lands. Er hann sagður hafa fengið meðákærða og annan mann til að smygla inn fíkniefnin með farþegaflugi frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur 23. nóvember 2020.

Mennirnir sem fluttu inn fíkniefnin voru dæmdir í annars vegar 12 mánaða fangelsi og hins vegar níu mánaða fangelsi með dómi í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra.

Höfuðpaurinn fékk meðákærða og annan mann með honum til að flytja inn fíkniefnin, sem farþegar með flugi frá Kaupmannahöfn í Danmörku til Keflavíkurflugvallar samkvæmt ákærunni.
Fréttablaðið/Anton Brink

30 milljónir af óskýrðum tekjum

Í ákæru, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að maðurinn, sem er fæddur 1969 og var annar þeirra sem flutti inn fíkniefnin, hafi einnig þvegið peninga á Íslandi.

Lögreglan rannsakaði fjármál mannsins og fann alls 7.364.328 krónur af óskýrðum tekjum.

Höfuðpaurinn, sá sem er fæddur 1990, var einnig sakaður um peningaþvætti en heildarandlag óskýrðra tekna hans á tímabilinu voru samtals 22.661.548 krónur.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness í gærmorgun en Dagmar Ösp Vésteinsdóttir saksóknari sækir málið fyrir hönd héraðssaksóknara og krefst þess að hinir ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.