Karlmaður frá Essex-héraði í Bretlandi hefur verið sakfelldur fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot, en hann var gómaður á leið frá Bretlandi til Íslands. Hann hafði grætt 2,7 milljón sterlingspunda með sölu fíkniefna, en það jafngildir tæplega 500 milljónum íslenskra króna.

Hinn 24 ára gamli Bradley Pryer hlaut tólf ára fangelsisdóm, en hann játaði sök. Þetta kemur fram á vef NCA, bresku alríkislögreglunnar.

Hann var til rannsóknar hjá nokkrum deildum bresku lögreglunnar þegar hann, ásamt félaga sínum Cain Adams, var handtekinn á Stansted-flugvellinum í apríl á síðasta ári. Félagin hlaut tveggja ára skilorðsbundin dóm.

Skömmu eftir handtökuna ætluðu þeir að fljúga til Reykjavíkur, en breskir fjölmiðlar segja að fíkniefnaleitarhundur hafi merkt þá, og í ljós komið að þeir höfðu umtalsvert magn kókaíns innvortis. Virði þeirra efna var 6300 pund, eða rúm milljón króna, ef miðað er við breskt götuverð, en talið er að þau hefðu verið umtalsvert verðmætari á Íslandi. Fram kemur að styrkleiki efnanna hafi verið mikill.

Skilaboð í síma Pryer gáfu til kynna að hann hafi ætlað að senda svipað magn efna vikulega til Íslands með burðardýrum. Þá var að finna samskipti milli hans við Robert Smith, en NCA fullyrðir að hann eigi einnig fangelsisdóm yfir höfði sér.

Fram kemur að Pryer hafi haldið úti umfangsmikilli fíkniefnastarfsemi í Essex-héraðinu, en einnig í London og Portsmouth. Hann seldi heróín, ketamín, MDMA, amfetamín, kannabis, og lyfseðilsskyld lyf. Líkt og áður sagði hafði hann grætt milljónir punda á þessari sölu.

„Hann og Cain Adams voru tilbúnir að leggja líf sitt í hættu með því að smygla kókaíni frá Bretlandi í von um að græða enn meira á Íslandi,“ er haft eftir Andrew Tickner frá OCP, sem berst gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Bretlandi.