Stjórn tryggingafélagsins Sjóvá hefur lagt til að hlutafé félagsins sé lækkað og lækkunarfjárhæðin, sem nemur 2,5 milljarða króna, verði greidd út til hluthafa, samkvæmt Viðskiptablaðinu. Félag íslenskra bifreiðaeiganda skorar á stjórnina að leggja til að hlutafjárlækkunin gangi til tryggingartaka í staðinn.
Sjóvá hefur boðað til hluthafafundar 19. október næstkomandi. „Tilgangur hlutafjárlækkunarinnar er að laga fjármagnsskipan félagsins að gjaldþolsviðmiðum stjórnar en gjaldþolshlutfallið liggur nú fyrir ofan efri mörk viðmiðanna,“ segir í fundarboðinu.
FÍB gaf út fréttatilkynningu í morgun á heimasíðu sinni með áskoruninni. „Sjóvá liggur á gríðarlegum fjármunum sem félagið hefur sankað að sér með ofteknum iðgjöldum, ekki síst af bílatryggingum,“ segir í tilkynningunni.
Þar er því haldið fram að þessi peningur eigi frekar heima í höndum tryggingartaka, enda komi peningurinn fá þeim. „Félagið liggur einfaldlega á meiri peningum en þörf er fyrir vegna þess að það innheimtir óeðlilega há iðgjöld.“
„Líkt og öll hin tryggingafélögin hefur Sjóvá okrað á tryggingartökum áratugum saman. Þannig hefur Sjóvá byggt upp sterka eiginfjárstöðu og um leið lagt „afganginn“ í bótasjóði undir því yfirskini að þurfa að eiga fyrir tjónum,“ segir í tilkynningunni.
„Villandi“ fullyrðingar um rekstur vátryggingafélaga
Stjórn Sjóvár sendi frá sér fréttatilkynningu seinna um daginn með því markmiði að leiðrétta „villandi“ fullyrðingar um rekstur vátryggingafélaga. „Í ljósi þess að Fjármálaeftirlitið hefur sérstaklega fundið að því ef fyrirtæki á markaði svara ekki rangfærslum teljum við skylt að koma eftirfarandi á framfæri,“ segir þar.
„Rekstur vátryggingafélaga kallar á langtímahugsun,“ segir í tilkynningunni en þar er tekið fram að til að slíkt félag geti staðið við skuldbindingar til tryggingartaka þurfi það að hafa fjárhagslega burði til að geta bætt tjón. Þá segir að iðgjöld standi ekki alltaf undir tjóni á venjulegu ári og því sé markmiðið að hafa jafnvægi á milli ára.
„Hvað varðar ökutækjatryggingar þá hefur afkoma af þeim sögulega verið slæm. Þess má geta að frá skráningu félagsins á markað hefur verið tap af lögboðnum ökutækjatryggingum,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að tjón hafi verið í sögulegu lágmarki árið 2020 vegna faraldursins og því villandi að horfa eingöngu á það ár. Félagið hafi verðlaunað þá tryggingartaka sem ekki lentu í tjóni með endurgreiðslum iðgjalda og seinustu átján mánuði nam sú upphæð 2,1 milljarða.

Í tilkynningunni segir að hluthafar hafi ekki fenginn greiddan arð á árinu 2020, sem sé önnur ástæða fyrri hlutafjárlækkuninni.
„Þeir fjármunir sem lagt er til að ráðstafa til hluthafa nú eru hluti af eigin fé félagsins – þ.e. eignir sem eru umfram skuldbindingar félagsins, þar með talin tjónaskuld sem ætlað er að greiða tjónakostnað viðskiptavina félagsins og hefur ráðstöfunin engin áhrif á getu félagsins til að standast þær skuldbindingar,“ segir í tilkynningunni.
„Sjóvá er almennt hlutafélag á samkeppnismarkaði og lýtur auk þess eftirliti Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Ólíkt því sem haldið hefur verið fram er það skylda tryggingafélaga að búa yfir umframfjármagni til að hafa bolmagn til að standast lögbundnar kröfur um getu til að mæta áföllum í rekstri,“ segir að lokum.