Stjórn trygginga­fé­lagsins Sjó­vá hefur lagt til að hluta­fé fé­lagsins sé lækkað og lækkunar­fjár­hæðin, sem nemur 2,5 milljarða króna, verði greidd út til hlut­hafa, sam­kvæmt Við­skipta­blaðinu. Fé­lag ís­lenskra bif­reiða­eig­anda skorar á stjórnina að leggja til að hluta­fjár­lækkunin gangi til tryggingartaka í staðinn.

Sjó­vá hefur boðað til hlut­hafa­fundar 19. októ­ber næst­komandi. „Til­gangur hluta­fjár­lækkunarinnar er að laga fjár­magns­skipan fé­lagsins að gjald­þolsvið­miðum stjórnar en gjald­þols­hlut­fallið liggur nú fyrir ofan efri mörk við­miðanna,“ segir í fundar­boðinu.

FÍB gaf út frétta­til­kynningu í morgun á heima­síðu sinni með á­skoruninni. „Sjó­vá liggur á gríðar­legum fjár­munum sem fé­lagið hefur sankað að sér með of­teknum ið­gjöldum, ekki síst af bíla­tryggingum,“ segir í til­kynningunni.

Þar er því haldið fram að þessi peningur eigi frekar heima í höndum tryggingar­taka, enda komi peningurinn fá þeim. „Fé­lagið liggur ein­fald­lega á meiri peningum en þörf er fyrir vegna þess að það inn­heimtir ó­eðli­lega há ið­gjöld.“

„Líkt og öll hin trygginga­fé­lögin hefur Sjó­vá okrað á tryggingar­tökum ára­tugum saman. Þannig hefur Sjó­vá byggt upp sterka eigin­fjár­stöðu og um leið lagt „af­ganginn“ í bóta­sjóði undir því yfir­skini að þurfa að eiga fyrir tjónum,“ segir í til­kynningunni.

„Villandi“ full­yrðingar um rekstur vá­trygginga­fé­laga

Stjórn Sjó­vár sendi frá sér frétta­til­kynningu seinna um daginn með því mark­miði að leið­rétta „villandi“ full­yrðingar um rekstur vá­trygginga­fé­laga. „Í ljósi þess að Fjár­mála­eftir­litið hefur sér­stak­lega fundið að því ef fyrir­tæki á markaði svara ekki rang­færslum teljum við skylt að koma eftir­farandi á fram­færi,“ segir þar.

„Rekstur vá­trygginga­fé­laga kallar á lang­tíma­hugsun,“ segir í til­kynningunni en þar er tekið fram að til að slíkt fé­lag geti staðið við skuld­bindingar til tryggingar­taka þurfi það að hafa fjár­hags­lega burði til að geta bætt tjón. Þá segir að ið­gjöld standi ekki alltaf undir tjóni á venju­legu ári og því sé mark­miðið að hafa jafn­vægi á milli ára.

„Hvað varðar öku­tækja­tryggingar þá hefur af­koma af þeim sögu­lega verið slæm. Þess má geta að frá skráningu fé­lagsins á markað hefur verið tap af lög­boðnum öku­tækja­tryggingum,“ segir í til­kynningunni.

Þá segir að tjón hafi verið í sögu­legu lág­marki árið 2020 vegna far­aldursins og því villandi að horfa ein­göngu á það ár. Fé­lagið hafi verð­launað þá tryggingar­taka sem ekki lentu í tjóni með endur­greiðslum ið­gjalda og seinustu á­tján mánuði nam sú upp­hæð 2,1 milljarða.

Björgólfur Jóhansson stjórnarformaður Sjóvár.
Fréttablaðið/Valli

Í til­kynningunni segir að hlut­hafar hafi ekki fenginn greiddan arð á árinu 2020, sem sé önnur á­stæða fyrri hluta­fjár­lækkuninni.

„Þeir fjár­munir sem lagt er til að ráð­stafa til hlut­hafa nú eru hluti af eigin fé fé­lagsins – þ.e. eignir sem eru um­fram skuld­bindingar fé­lagsins, þar með talin tjóna­skuld sem ætlað er að greiða tjóna­kostnað við­skipta­vina fé­lagsins og hefur ráð­stöfunin engin á­hrif á getu fé­lagsins til að standast þær skuld­bindingar,“ segir í til­kynningunni.

„Sjó­vá er al­mennt hluta­fé­lag á sam­keppnis­markaði og lýtur auk þess eftir­liti Fjár­mála­eftir­liti Seðla­banka Ís­lands. Ó­líkt því sem haldið hefur verið fram er það skylda trygginga­fé­laga að búa yfir um­fram­fjár­magni til að hafa bol­magn til að standast lög­bundnar kröfur um getu til að mæta á­föllum í rekstri,“ segir að lokum.