„Rödd FÍB mun ekki breytast þrátt fyrir þetta viðbragð Sjóvár. Við munum eftir sem áður berjast gegn fákeppni á vátryggingamarkaði og vekja meðal annars athygli á óeðlilega háum iðgjöldum,“ segir Runólfur Ólafsson hjá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB.

Sjóvá rifti samn­ingi við FÍB-aðstoð aðeins nokkr­um vik­um eft­ir að FÍB gagn­rýndi trygg­inga­fé­lagið fyr­ir millj­arða króna greiðslur til hlut­hafa. Runólfur telur einsýnt að um þöggunartilburði af hálfu hlutafélagsins sé að ræða.

„Það er ekkert sem bendir til annars en að þeir séu að reyna að þagga niður í okkur. Það var aldrei kvartað yfir þjónustunni og enginn undanfari,“ segir Runólfur og getur þess að um langt samstarf hafi verið að ræða. „Ég get skilið að þeir telji að þeir geti komið á okkur höggi, en það mun ekki takast.“

FÍB-aðstoð hef­ur ann­ast Vega­aðstoð Sjóvár síðan 2007. Eins og fram kom í Fréttablaðinu síðastliðið haust, varð slagur þegar FÍB gagnrýndi tryggingafélögin fyrir okur. Greinaskrif framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, sem skýrði iðgjöldin með ýmsum rökum, leiddu til formlegrar kvörtunar, sem lögmaður FÍB sendi Samkeppnisstofnun, þar sem talið var að um óeðlilegt inngrip og samtryggingu væri að ræða.

FÍB hafði staðhæft að á undanförnum sex árum hefðu iðgjöld bílatrygginga hækkað um 44 prósent, en verðlagsvísitala hækkað á sama tímabili um 17 prósent. Slysum í umferðinni hefði á tímabilinu fækkað verulega.

„Tryggingafélögin græða á tá og fingri eins og viðskiptafréttir bera með sér. Kemur auðvitað ekki á óvart, viðskiptamódelið er skothelt: engin verðsamkeppni, stöðug hækkun iðgjalda, minnkandi kostnaður og velþóknun stjórnvalda,“ sagði FÍB.

Upp­sögn­in barst svo í lok októ­ber, aðeins fjór­um vik­um eft­ir að FÍB birti áskor­un til Sjóvár um að skila of­tekn­um iðgjöld­um til viðskipta­vina, frek­ar en láta þau renna í vasa hlut­hafa,“ að sögn Runólfs.

Hann bendir á að líf­eyr­is­sjóðir launa­fólks eigi 48,3% hluta­fjár í Sjóvá. Stjórn­end­ur fyr­ir­tæk­is í eigu al­menn­ings verði að hafa þrek til að þola gagn­rýni.

„Það hefur verið rætt undanfarið að fyrirtækin eigi að axla samfélagslega ábyrgð og það skýtur skökku við að svona stórt hlutafélag hegði sér svona. Ef þessi ákvörðun var borin undir stjórn hlutafélags Sjóvár, finnst mér undarlegt ef stjórnin samþykkti þessi viðbrögð,“ segir Runólfur.

Ekki bárust viðbrögð frá Sjóvá þegar Fréttablaðið leitaði viðbragða við gagnrýni FÍB.