FCA tilkynnti við uppgjör þriðja ársfjórðungs að samsteypan hyggist leggja framleiðslu smábíla á hilluna og það gæti gerst mjög fljótlega. Þess í stað á að leggja áherslu á B-flokk bíla sem eru í stærðarflokki eins og Fiat Punto eða Ford Fiesta.

Á dagskrá hjá fleiri framleiðendum

Aðrir bílaframleiðendur hafa gert það sama að undaförnu og nægir að nefna merki eins og Ford og Opel. Volkswagen Group er einnig að íhuga að hætta framleiðslu á VW Up, Seat Mii og Skoda Citigo. Ástæðan er hærri þróunarkostnaður vegna strangari mengunarreglna, en það þýðir aftur á móti að hagnaðurinn vegna framleiðslu smábíla er ekki nægur til að standa undir framleiðslu þeirra. Reglur, sem eiga að tryggja minni mengun, eru því að hafa þau áhrif að minnstu bílarnir sem skilja eftir sig minna kolefnisspor eru á leið út af markaðinum. Öfugsnúið, ekki satt?

Þrátt fyrir að vera leiðandi á markaði smábíla er áhersla Fiat að færast af A-flokki bíla yfir á B-flokk. Þess vegna er ekki ólíklegt að nýr Fiat Punto sé á teikniborðinu, sérstaklega þegar samruni FCA og PSA er genginn í gegn. Þá fær Fiat aðgang að undirvagni Peugeot 208 og Opel Corsa sem gefur Fiat möguleika á að koma með raf- og tvinnútgáfur. Fiat mun þó ætla að halda í Fiat 500 enn um sinn, en rafútgáfa hans er áætluð á næsta ári. Fiat 500 er óhemju vinsæll en 105.000 eintök voru seld í Evrópu á fyrsta ársfjórðungi 2019. Samt er núverandi kynslóð sjö ára að aldri.