Aðalstjórn FH sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að forsvarsmenn félagsins fordæmi hvers kyns ofbeldi.

Þar segir að þeir sem starfi á vegum félagsins séu mjög meðvituð um umræðuna um ofbeldis- og kynferðisbrot innan knattspyrnunnar, tekur hana alvarlega og fordæmir hvers kyns ofbeldishegðun.

Fulltrúar félagsins hafa hitt ráðgjafa og fulltrúa ÍSÍ, Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur, vegna viðbragða í þessum erfiðu málum og mun sú vinna halda áfram og hafa forgang í starfi félagsins.

Kolbrún leiðir faghóp KSÍ sem skipaður var í upphafi þessarar viku og er ætlað að halda utan um jafnréttismál hjá sambandinu.

Hulda Hrund Sig­munds­dótt­ir, stjórnarmeðlimur í aðgerðarhópnum Öfgar, greindi frá því á twitter-síðu sinni í gær að leikmaður í karlaliði FH í fótbolta, sem hefur þjálfað hjá yngri flokkum félagsins, sé sakaður um nauðgun.

Viðar Halldórsson, formaður aðalstjórnar FH, segir í samtali við Fréttablaðið að engum samningi hafi verið rift við leikmann félagsins í vikunni og engar tilkynningar hafi borist félaginu um ofbeldishegðun starfsmanns félagsins síðustu vikurnar.