Formaður aðalstjórnar FH segir að ekki sé búið að reka neinn úr liðinu og engum samningi hafi verið rift.

„Engum samningi hefur verið rift í fimleikafélaginu. Það sem stendur í yfirlýsingunni er að málin eru í skoðun og þar erum við núna,“ segir Viðar Halldórsson og bætir við að félagið hafi ekki fengið neina tilkynningu um „ósiðlegt athæfi eins eða neins.“

Aðspurður um ásakanir á samfélagsmiðlum gagnvart þjálfara yngri flokka og liðsmanni í byrjunarliði FH sagðist Viðar ekki kannast við þá umræðu og spurði hvaða ásakanir það væru.

„Það eru engin gögn í einu eða neinu sem tengist leikmanni FH sem við höfum fengið í hendurnar eða séð. En eins og ég segi er verið að skoða þetta mál eða þessi mál almennt í félaginu og í samráði við ÍSÍ og þeirri vinnu verður haldið áfram,“ sagði hann og bætti við að hann sem og stærsti hluti þjóðarinnar standi með þolendum. Allt verði að fá sína skoðun.

„Upphrópanir á Twitter leysa ekki þetta mál eins og margir virðast halda.“

Líkt og Fréttablaðið greindi frá fyrr í dag sendi aðalstjórn FH frá sér yfirlýsingu þar sem fram kom að þau sem starfi á vegum félagsins séu mjög meðvituð um umræðuna um ofbeldis- og kynferðisbrot innan knattspyrnunnar, taki hana alvarlega og fordæmir hvers kyns ofbeldishegðun.

Faghópur leiddur af Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur var nýlega settur á laggirnar en hann mun rýna vel í alla verkferla KSÍ skoða vel hvað þurfi að gera betur í tengslum við kynferðisbrot og ofbeldi innan hreyfingarinnar.