Við höfum rætt þetta við lögfræðinga og erum mjög hrædd um að þetta muni lenda á okkur,“ segir Andrej Holbicka, eigandi parhúss að Skólagerði 49 á Kársnesi í Kópavogi.
Frétt um húsið birtist á vef Fréttablaðsins í gær en það er 204,2 fermetrar og er áhugasömum bent á að bóka skoðun á eigninni hjá Fasteignasölunni Miðborg og gera það með fagaðilum í viðeigandi klæðnaði af heilsufarsástæðum. Seljandi er dánarbú sem eignaðist húsið í skuldaskilum. Ljóst er að tugi milljóna þarf til að gera húsið íbúðarhæft og óttast Andrej, sem á hinn hluta parhússins, að þurfa að taka þátt í þeim kostnaði.
Andrej segir í samtali við Fréttablaðið að fyrrverandi eigandi hússins hafi ekki sinnt neinu viðhaldi, undanfarin fjörutíu ár eða svo. Hann segir að fjölskyldan hafi lengi haft áhyggjur af stöðu mála.
„Við höfum rætt þetta við lögfræðinga og erum mjög hrædd um að þetta muni lenda á okkur,“ segir hann. Andrej segist ekki hafa haft hugmynd um íslensk lög um parhús þegar hann keypti eignina. Slíkt tíðkist ekki í Evrópu.
„Maðurinn hafði ekki sýnt neinn áhuga á viðhaldi og ég hef oft beðið um að til dæmis Kópavogsbær geri eitthvað í málunum. Það hefur ekki verið gert og þetta er bara búin að vera skelfileg staða,“ segir hann.
Hefur gert allt fyrir sitt hús
Andrej tekur fram að hann hafi gert allt fyrir sitt eigið hús. Oft hafi verið erfitt að standa í endurnýjun og endurbótum vegna aðfinnslna frá fyrrverandi eiganda. Hann segir að sér hafi verið ráðlagt af lögfræðingi að gera samkomulag um viðgerðir við manninn.
„Svörin sem ég fékk voru þau að ég yrði að gera samkomulag við manninn, um að hann sæi um sinn hlut og ég um minn. En hann vildi ekki skrifa undir slíkt.“
Andrej segir Kópavogsbæ hafa sýnt máli sínu lítinn áhuga, þrátt fyrir að hann hafi endurtekið viðrað áhyggjur sínar af umgengni mannsins við eignina. Hann segir nágranna einnig hafa haft áhyggjur vegna hússins. Nú bíði fjölskyldan eftir því að nýr eigandi muni mögulega rukka þau fyrir himinháan viðgerðarkostnað vegna gjörónýts hússins. „Það gæti gerst. Og yrði mjög ósanngjarnt,“ segir Andrej.
Gæta þarf sérstakrar árverkni við skoðun á húsinu
Seljandi bendir því á að gæta þurfi sérstakrar árvekni við skoðun á húsinu. Mikilvægt er að leitað sé aðstoðar sérfræðinga og haft eftir Gunnari Þorfinnssyni byggingafræðingi að eignin sé afar illa farin og þarfnist algjörrar endurnýjunar að innan og utan, sökum rakaskemmda og myglu.
Slíkar skemmdir megi finna á öllum hæðum hússins, auk áberandi myglu víðast hvar ásamt öðrum óhreinindum. Lagnir eru tærðar og ónýtar ásamt viðvarandi leka. Þá þarfnast botnplata í kjallara endurnýjunar þar sem hún er morknuð. Þá þarfnast þakið endurnýjunar, auk þess sem endurbóta er þörf á steyptum flötum og endurnýja þarf allt tréverk, glugga og hurðir.
